EN

8. september 2003

Borgarstjórinn stjórnar Sinfóníuhljómsveitinni

Þann 9. september næstkomandi verður hinn svokallaði Sinfóníudagur haldinn hátíðlegur. Gestir og gangandi eru boðnir velkomnir í Háskólabíó til þess að kynnast starfi Sinfóníuhljómsveitarinnar, hitta hljóðfæraleikarana og fræðast um starf þeirra. Vinafélag SÍ heldur málþing þar sem fundarmenn leitast við að svara spurningunni Hver á að reka Sinfóníuhljómsveit Íslands? Auk þess verður starfsárinu 2003 – 2004 gerð góð skil í máli, tónum og myndum og að lokum mun borgarstjórinn í Reykjavík, Þórólfur Árnason, stjórna flutningi á forleiknum að Brúðkaupi Fígarós eftir Wolfgang Amadeus Mozart.+++ Hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands bjóða gesti á opnu húsi Sinfóníudagsins velkoma á sviðið til að sjá heiminn með augum hljóðfæraleikarans, fræðast um hvaðeina er varðar starfið. Hvað er Sinfóníuhljómsveit og hvað gerir hún? Í starfi sinfóníuhljómsveita vill kastljósið oftar en ekki beinast að einleikurum og hljómsveitarstjórum. Það vill stundum gleymast að á sviðinu eru 80 frábærir tónlistarmenn sem allir leggja sitt af mörkum til þeirrar margbrotnu mósaíkmyndar sem sinfónísk tónverk eru öllu jöfnu. Dagskrá Sinfóníudagsins 15.00: Málþing Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands Hver á að reka Sinfóníuhljómsveit Íslands? Fulltrúar rekstraraðila flytja framsögur ásamt góðum gestum. Umræður í framhaldi. Stutt hlé og veitingar í boði LEXUS 16.30: Kynning á efnisskrá vetrarins í máli Stiklað á stóru yfir spennandi starfsár 16. 45: Hljómsveitarastjóra -áskorun Borgarstjórinn í Reykjavík stjórnar forleik að brúðkaupi Fígarós 17.00: Allir á svið – sjáið útsýnið og fræðist Af hverju eru hornleikarar alltaf með aðra hendina inni í hljóðfærinu? Af hverju sitja fiðluleikararnir alltaf hægra megin? Væntanlega eru mýmargar spurningar sem brenna á forvitnum gestum og nú er þeirra tækifæri til þess að hitta Sinfóníuhljómsveitina í návígi. Veitingar í boði LEXUS – aðalstyrktaraðila Sinfóníuhljómsveitar Íslands Velkomin í Háskólabíó, þriðjudaginn 9. september á milli kl. 15.00- 17.00