EN

16. desember 2003

Mjög vel heppnuð tónleikaferð að baki

Það voru þreyttir en ánægðir meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem snéru heim úr vel lukkaðri tónleikaferð um Þýskaland um helgina. Hljómsveitin hélt alls fimm tónleika í jafn mörgum borgum og óhætt er að segja að flutningurinn hafi hvarvetna vakið athygli og ánægju þýskra tónleikagesta. +++ Efnisskráin spannaði vítt litróf tónmálsins, hófst á splunkunýju verki Áskels Mássonar, FRÓN, sem hann samdi sérstaklega fyrir þessa tónleikaferð að beiðni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, því næst tók við píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov sem rússnenski einleikarinn Lev Vinocour gerði hvarvetna góð skil. Eftir hlé var hljómsveitin í aðalhlutverki í flutningi á 5. sinfóníu Síbelíusar, undir stjórn Rumons Gamba, aðalhljómsveitarstjóra. Tónleikagestir voru svo verðlaunaðir í lokin með flutningi á tveimur stuttum en harla ólíkum verkum, annars vegar Nimrod, úr Enigma tilbrigðum, eftir Elgar og að lokum bráðfjörugri útgáfu Páls P. Pálssonar á hinu þekkta lagi Sigvalda Kaldalóns: Á Sprengisandi. Á öllum tónleikunum ætlaði allt um koll að keyra þegar Sinfóníuhljómsveitin tók þennan fjöruga endasprett og skildi við tónleikagesti ánægða eftir fjölbreyttan matseðil. Hljómsveitin kom fram í Köln, Düsseldorf, Bielefeld, Osnabrück og Kiel og var hvarvetna þéttsetið. Tónleikaferðir sem slíkar eru hljóðfæraleikurum Sinfóníuhljómsveitar Íslands einstaklega mikilvægar. Að spreyta sig fyrir erlenda áheyrendur í tónleikahúsum þar sem hljómburðurinn er öllu betri en við þekkjum héðan úr Háskólabíói er áskorun og vítamínsprauta í senn. Nokkrir Íslendingar lögðu leið sína á tónleikana ytra og varð einum þeirra á orði sem hefur hingað til aðeins hlýtt á Sinfóníuhljómsveit Íslands leika í Háskólabíói: “Það var eins og hljóðfæraleikararnir hefðu loksins pakkað upp hljóðfærunum.”