EN

9. janúar 2004

Þar sem 2 kontrabassar koma saman

Þann 15. janúar næstkomandi verður frumfluttur konsert eftir Hauk Tómasson sem ber heitið Skíma. Konsertinn samdi hann fyrir 2 kontrabassa og hljómsveit. Það er ekki mjög algengt að kontrabassi sé í einleikshlutverki og hvað þá að þeir séu tveir. Giovanni Bottesini samdi konsert fyrir 2 kontrabassa sem síðar var umskrifaður fyrir kontrabassa og fiðlu. Viti einhver fleiri dæmi slíkra konserta þá gefi sá hinn sami sig fram! Höfundurinn, Haukur Tómasson, hefur þetta að segja um verkið:+++ Konsert fyrir tvo kontrabassa og hljómsveit var saminn fyrir Hávarð Tryggvason og Val Pálsson á árunum 2001 og 2002 og er tileinkaður þeim. Á þessu tímabili átti ég nokkra fundi með þeim sem var mjög lærdómsríkt. Þeir hafa haldið áfram fram á þennan dag að leiða mér fyrir sjónir möguleika þessa magnaða hljóðfæris og stend ég í þakkarskuld við þá fyrir það. Ef til vill hefði verið réttara að kalla þetta einfaldlega tónlist fyrir tvo kontrabassa og hljómsveit þar sem ekki er mikið lagt uppúr keppni milli þátttakenda. Fremur er um samvinnu og samspil að ræða og lítið fer fyrir fingrafimleikum og flugeldasýningum. Það þýðir þó ekki að þetta sé auðleikið. Verkið er skrifað fyrir meðalstóra hljómsveit en nokkrum hljóðfærum er sleppt; fagottum, hornum, túbu og hljómsveitarbassarnir fá einnig frí. Þannig sjá einleiksbassarnir um “bassann” í verkinu. Verkið er í tveim andstæðum köflum. Fyrri hefur yfirskriftina Tenebroso (drungalegur, skuggalegur) og sá seinni Animato (líflegt). Haukur Tómasson