EN

16. apríl 2004

9. sinfónían - aukatónleikar haldnir 30. apríl

Vegna mikillar eftirspurnar er nú að verða uppselt á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudaginn 29. apríl en þá stendur til að flytja 9. sinfóníu Beethovens og Metomorpohsen eftir Richard Strauss. Til að bregðast við því hefur nú verið ákveðið að endurtaka flutninginn strax daginn eftir, föstudaginn 30. apríl +++en miðasala á þá tónleika er þegar hafin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það verða þau Elín Ósk Óskarsdóttir, Alina Dubik, Kolbeinn Ketilsson og Kristinn Sigmundsson sem syngja ásamt Óperukórnum í Reykjavík. Hljómsveitarstjóri verður Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri SÍ en kórinn verður undir stjórn Garðars Cortes. 9. sinfónía Beethovens er án vafa eitt af mestu þrekvirkjum tónlistarsögunnar. Sjálfur heyrði Beethoven aldrei svo mikið sem einn tón af verkinu nema í huga sér enda orðinn algerlega heyrnarlaus þegar hann samdi það. Sagan af frumflutningi verksins er lífseig þó deilt sé um sannleiksgildi hennar. Sagt er að Beethoven hafi stýrt flutningnum af svo mikilli röggsemi að hann hafi ekki getað hætt eftir að verkinu lauk. Einn söngvaranna hafi því þurft að grípa um axlir hans og snúa honum að salnum svo hann áttaði sig á því að gestirnir höfðu allir risið á fætur og klöppuðu ákaft í einlægri hrifningu. Talið er að Beethoven hafi í mörg ár ætlað að semja tónlist við ljóð Schillers, “An die Freude" eða “Óðinn til gleðinnar” eins og við þekkjum það og vitað er að hann komst yfir kveðskapinn einum þrjátíu árum áður en hann lauk við 9. sinfóníuna. Líklega hefur ekkert verka hans krafist eins mikils af honum og til að mynda fóru um 200 hugmyndir að lokastefinu kraftmikla í ruslatunnuna áður en hann varð sáttur.