19. apríl 2004
Sumri fagnað með Draumi á Jónsmessunótt
Föstudaginn 23. apríl flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands Draum á Jónsmessunótt eftir Felix Mendelssohn. Tónlistina samdi hann árið 1843 í tilefni af uppfærslu Konunglega leikhússins í Berlín á þessum vinsæla gamanleik eftir Shakespeare. Einnig er á dagskrá sama kvöld Verklärte nacht eftir Arnold Schönberg. Hljómveitarstjóri verður Bernharður Wilkinson. +++ Fjöldi góðra gesta leggur hljómsveitinni lið á tónleikunum. Valur Freyr Einarssonleikari verður sögumaður en söngvarara verða þær Þóra Einarsdóttir og Hulda Björk Garðarsdóttir. Auk þess mun stúlknakórinn Graduale Nobili koma fram undir stjórn Jóns Stefánssonar. Verk Mendelsohn er í 13 þáttum, best þekktur þeirra er sjálfsagt sá níundi, Brúðarmarsinn svokallaði, sem gjarnan er leikinn undir við útgöngu nýgiftra hjóna. Valur Freyr mun lesa úr þýðingum Helga Hálfdánarsonar, söngtextar verða sungnir á þýsku. “Ef ekki bregzt mér ásýnd þín og klæði, þá ertu hrekkjalómur sá hinn skæði sem nefnist Hrói Heillakarl; þú lætur hvergi í friði ungar bóndadætur;” Úr Draumi á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare, í þýðingu Helga Hálfdánarsonar.