26. apríl 2004
Rumon Gamba framlengir samning sinn við SÍ
Rumon Gamba og stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa náð samkomulagi um að framlengja samning hans við hljómsveitina og verður hann því aðalhljómsveitarstjóri hennar og listrænn stjórnandi fram til ársins 2009. Gamba tók við stöðu aðalhljómsveitarstjóra árið 2002 en á þeim tíma var það eindreginn vilji hljóðfæraleikara að hann fengi stöðuna enda náði hann fljótt einstöku sambandi við hljómsveitina og sú samvinna hefur gert góða hljómsveit enn betri. +++ Á þessu starsfári hefur Rumon Gamba í auknum mæli lagt mark sitt á starf sveitarinnar, bæði hvað varðar efnisval og hinn listræna þátt og á tónleikum vikunnar, þar sem m.a. 9. sinfónía Beethovens er á efnisskránni, mun hann stýra hljómsveitinni í sjöunda sinn þennan veturinn. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Gamba öðlast mikla reynslu, einkum í starfi sínu með hljómsveitum Breska ríkisútvarpsins. Rumon Gamba stundaði nám í Royal Academy of Music í London, þar sem hann naut meðal annars leiðsagnar Sir Colins Davis. Á námstímanum í Royal Academy vann hann til ýmissa verðlauna, meðal annars til 1. verðlauna í keppni sem BBC efndi til meðal ungra stjórnenda árið 1998. Rumon Gamba starfaði um tíma í Póllandi og Rússlandi, en 1998 var hann ráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitar Breska ríkisútvarpsins, BBC. Hann hefur síðan stjórnað hljómsveitinni víða á tónleikum, til að mynda á hinni vinsælu Promshátíð BBC í Royal Albert Hall í London. Undir hans stjórn hefur Fílharmóníusveitin leikið inn á nokkra geisladiska hjá Chandosútgáfunni, meðal annars tónlist eftir Malcolm Arnold, Georges Auric og Richard Rodney Bennett. Rumon Gamba hefur komið fram sem gestastjórnandi með flestum hljómsveitum Bretlandseyja og má þar nefna BBC-sinfóníuhljómsveitina í Skotlandi, Konunglegu fílharmóníusveitina í Liverpool, London Mozart Players, Hallé-hljómsveitina og Birmingham Contemporary Music Group. Meðal hljómsveita á meginlandi Evrópu sem hann hefur unnið með eru Fílharmóníuhljómsveitin í München og sinfóníuhljómsveitirnar í Duisburg og Barcelona. Meðal verkefna hans á næstunni er að stjórna Fílharmóníusveit Florida, Fílharmóníusveit New York og Sinfóníuhljómsveit Melbourne.