6. maí 2004
Ödipus, Stravinskíj, Mozart og allir hinir.
Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fimmtudaginn 13. maí, verða á efnisskránni tvö harla ólík verk, samin af óíkum mönnum á mismunandi tímum.Verkin eru annars vegar Ödipus Rex eftir Ígor Stravinskíj og hins vegar sinfónía nr. 39. eftir Wolfgang Amadeus Mozart. +++ Sagan um Ödipus, hinn ógæfusama konung Þebu, sem myrti föður sinn og giftist móður sinni, en stakk svo úr sér augun þegar hann áttaði sig á því hvernig í öllu lá, hefur verið fjölda listamanna innblástur í gegnum tíðina. Ígor Stavinskíj var einn þeirra. Grípum niður í efnisskrá Árna Heimis Ingólfssonar: Í ævisögu sinni segir Stravinskí að hann hafi árið 1925 ákveðið að „semja eitthvað stórt. Ég hafði í huga óperu eða óratóríu við sögu sem allir þekktu. Hugmyndin var að með slíku efni gæti ég átt athygli áheyrenda óskipta, þar sem sagan sjálf yrði ekki til að draga athyglina frá tónlistinni. Ég ákvað að leita fanga í hinum vel kunnu goðsögnum Grikklands til forna“. Útkoman varð „óperu-óratórían“ Ödipus Rex, samin á árunum 1926-27. (Lesa efnisskrá) Hljómsveitarstjóri á tónleikunum verður Bernharður Wilkinson en einsöngvarar þau Elín Ósk Óskarsdóttir, sópran, Algirdas Janutas, tenór, Snorri Wium, tenór, Andrzej Dobber, baritón, og Cornelius Hauptmann, bassi. Ingvar Sigurðsson leikari verður í hlutverki sögumanns. Á þessum tónleikum mun Karlakórinn Fóstbræður syngja með Sinfóníuhljómsveitinni en þess má geta að kórinn heldur til Sánkti-Pétursborgar í júníbyrjun og syngur sama verk ásamt Fílharmóníusveit Pétusrborgar og stórum samkór norrænna og baltneskra kóra. Þeir tónleikar eru endapunktur á kórahátíð sem ber nafnið “Festival of friends.” Kórstjóri á tónleikunum verður Árni Harðason. Tónleikar í Pétursborg verða einnig undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar.