23. ágúst 2004
Ársbæklingurinn borinn út til áskrifenda. Aldrei verið veglegri en í ár
Þessa dagana er ársbæklingur Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir starfsárið 2004 – 2005 að berast áskrifendum hljómsveitarinnar í pósti. Þó er sjálfsagt rangnefni að tala um bækling því um er að ræða 200 blaðsíðna kilju með ítarlegum upplýsingum um alla tónleika sem fyrirhugaðir eru á starfsárinu og allan þann fjölda af listamönnum sem kemur fram á þessum tónleikum. +++ Þetta eru nokkur nýmæli því hingað til hefur ársbæklingurinn ekki verið svo efnismikill. Bókin er skemmtileg lesning fyrir alla þá sem hafa áhuga á að fá frekari innsýn inn í heim tónlistarinnar sem flutt verður í Háskólabíói í vetur. Bókin mun fylgja með öllum keyptum áskriftum á starfsárinu en hana verður einnig hægt að kaupa á skrifstofu hljómsveitarinnar, í verslunum Eymundsson í Smáralind, Kringlunni og í Austurstræti og einnig í Máli og Menningu á Laugavegi. Halldór Hauksson hefur skrifað efni bókarinnar en auk þess lögðu Oddný Sen, kvikmyndafræðingur, og Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur, gjörva hönd á plóginn. Hönnun og umbrot bókarinnar var í höndum Máttarins og dýrðarinnar en Litróf sá um prentun.