13. september 2004
Laila Josefowicz leikur fiðlukonsert eftir Adams. Gríma eftir Jón Nordal flutt í fyrsta sinn af SÍ.
Áður en fiðluleikarinn Leila Josefowicz komst á táningsaldur hafði hún leikið fyrir fleiri fyrirmenni og heimsfrægar stjörnur en flestir hljóðfæraleikarar komast í tæri við á heilli ævi, enda verður undrabarn sem elst upp í Los Angeles gjarna vinsæll „skemmtikraftur“ í veislum fína og fallega fólksins. Það þarf sterk bein til að þola svo mikla athygli á unga aldri, en Leilu Josefowicz tókst á aðdáunarverðan hátt að brúa bilið á milli barnastjörnunnar +++og fullþroska listamanns. Nú þegar hún er á miðjum þrítugsaldri er hún á góðri leið með að leggja heiminn að fótum sér í krafti glæsilegrar spilamennsku og spennandi verkefnavals. Hún er æ oftar nefnd í sömu andrá og fremstu fiðluleikarar heims. Leila Josefowicz sló í gegn sextán ára gömul árið 1994. Þá hlaut hún hinn eftirsóknarverða Avery Fisher styrk, kom í fyrsta sinn fram í Carnegie Hall og skrifaði undir plötusamning við Philips Classics. Þar var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur: fyrsti diskurinn innihélt konserta Tsjajkovskíjs og Sibeliusar! Ferillinn var kominn á fullan skrið og hún hafði ekki tíma til að vera viðstödd útskrift sína frá Curtis Institute of Music (þar sem Joseph Brodsky og Jaime Laredo kenndu henni) vegna anna við tónleikahald. Undanfarin ár hefur hún leikið með flestum virtustu sinfóníuhljómsveitum heims og félagar hennar á kammertónlistarsviðinu eru m.a. Martha Argerich, András Schiff, Mitsuko Uchida, Truls Mørk og Mischa Maisky. Leila Josefowicz gerir sér far um að leika fjölbreytta og áhugaverða tónlist, eins og heyra má á rómuðum geisladiskum hennar. Flutningi hennar á fiðlukonserti Johns Adams með BBC-sinfóníunni undir stjórn höfundarins var sjónvarpað til fjölda landa og fékk frábæra dóma. Hún hefur leikið verkið víða um jarðir og nú er loks komið að Reykjavík. Sinfónían heldur áfram að kynna tónlist Johns Adams. Hann er einn af bandarísku mínímalistunum svokölluðu, þó sú lýsing hrökkvi raunar skammt. Fá núlifandi tónskáld eiga jafnmikilli velgengni að fagna og Adams og hann hreyfir við áheyrendum með kröftugri og síkvikri tónlist sinni hvort sem hann skrifar hljómsveitarverk eins og The Chairman Dances (þar sem Maó og frú skella sér á dansgólfið), óperu um forseta á ókunnum slóðum (Nixon in China) eða kórverk um sálnaflakk (On the Transmigration of Souls, samið til minningar um fórnarlömb hryðjuverkanna 11. september 2001). Fiðlukonsertinn frá 1993, varð fljótt afar vinsæll og margir þekktir fiðluleikarar hafa tekið hann upp á sína arma, þrátt fyrir, eða kannski vegna þess, að einleiksröddin er afar snúin. Fiðlan svífur linnulaust yfir hljómsveitinni í þessu ofurlagræna og fágaða verki er lýkur á tæknilegum loftfimleikum, sem aðeins huguðustu fiðluleikarar hætta sér út í. Adams fékk hin virtu Grawemeyer-verðlaun fyrir konsertinn árið 1995. Gríma eftir Jón Nordal, eitt af virtustu tónskáldum okkar, mun nú hljóma í fyrsta sinn í meðförum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, eins og fiðlukonsert Adams. Verkið var frumflutt af Kammersveit Reykjavíkur á Listahátíð í Reykjavík 2002 og var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna sama ár. Fyrsta sinfónía Roberts Schumanns hefur hinsvegar oft verið á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar, þó reyndar sé liðinn áratugur síðan hún hljómaði síðast í Háskólabíói. Schumann gerði uppkast að verkinu á aðeins fjórum dögum (og jafn mörgum nóttum) í janúar 1841, en um það leyti logaði sinfónískur eldur í brjósti tónskáldsins, að eigin sögn. Frumflutningur sinfóníunnar í Gewandhaus í Leipzig í mars sama ár undir stjórn Mendelssohns var einn af hápunktunum á ferli Schumanns og enn dást menn að meistaralegu samspili ljóðrænna og ástríðufullra þátta í þessu verki sem höfundurinn kallaði sjálfur „Vorsinfóníu“.