EN

22. september 2004

Það besta af hvíta tjaldinu frá Singing in the rain til Star Wars

„Skrifaðu tónlist eins og Wagner, bara háværari.“ (Kvikmyndamógúllinn Samuel Goldwyn, við eitt af tónskáldunum sem unnu fyrir hann). Á tónleikum SÍ á fimmtudag og föstudag verður boðið upp á kvikmyndatónlist af bestu gerð. Gamlar perlur frá gullaldarárunum hljóma í bland við þær nýrri. Þegar tindrandi stjörnur á borð við Gretu Garbo, Clark Gable og Errol Flynn spígsporuðu um götur kvikmyndaborgarinnar, söfnuðust þar einnig saman fjölmargir frábærir tónsmiðir af evrópskum uppruna og þeirra framlag varð oft á tíðum ómetanlegt. (Skoða efnisskrá) +++ Rödd Garys Williams hefur verið lýst sem draumi og í Times var því haldið fram að hann væri einn af fremstu sveiflusöngvurum Breta fyrr og síðar. Enskur gagnrýnandi lýsti list hans á þennan hátt: „Gary á það sameiginlegt með frábærum söngvurum eins og Frank Sinatra, Nat King Cole og Harry Connick Jr. að geta sett persónulegan stimpil á þekkt lög og gert þau að sínum eigin.“ Hinn ungi og margverðlaunaði enski hljómsveitarstjóri og útsetjari John Wilson hefur tekið saman afar forvitnilega efnisskrá. Tónlist úr nokkrum sígildum Hollywoodmyndum eftir fremstu fulltrúa bandarískrar kvikmyndatónlistar auk þess sem boðið verður upp á tónlist úr nokkrum ódauðlegum söngleikjamyndum svo sem: High Society og Singin’ in the Rain, einnig munu þau Logi Geimgengill og Lilja prinsessa koma nokkuð við sögu í þessari Hollywood-rapsódíu.