EN

18. nóvember 2004

Víkingasvar Jóns Leifs hlýtur fullt hús stiga í BBC Music Magazine

Sú metnaðarfulla ákvörðun sænsku tónlistarútgáfunnar BIS, á sínum tíma, að hljóðrita öll verk Jóns Leifs til útgáfu gaf spennandi fyrirheit og uppskeran veldur ekki vonbrigðum. Nú hefur enn einn geisladiskurinn, Víkingasvar, ratað í hillur verslana og fær hann líkt og hinir fyrri mjög jákvæðar umsagnir fagaðila í tónlist víða um heim.+++ Í októberhefti BBC Music Magazine, einu af virtari tónlistartímaritum heimsins, fær geislaplatan ákaflega góða dóma. Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir stjórn Hermanns Bäumer auk þess sem Mótettukórinn og Schola Cantorum syngja undir stjórn Harðar Áskelssonar, Karlakórinn Fóstbræður syngur undir stjórn Árna Harðarsonar og Kór Kársnesskóla undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur. Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Finnur Bjarnason og Ólafur Kjartan Sigurðarson syngja nokkur verka Jóns og að öðrum ólöstuðum hlýtur Guðrún Edda gríðarlegt lof fyrir sína frammistöðu. Einnig skipa þeir Sigurður Flosason, Jóel Pálsson, Kristinn Svavarsson og Hafsteinn Guðmundsson saxafónkvartett á titilverki disksins. Um verk Jóns Leifs segir gagnrýnandinn Calum MacDonald meðal annars: “Ef það var ætlun Jóns að landið og goðsögurnar endurspegluðust í tónlist hans, þá tókst honum ætlunarverkið rækilega.” Tímaritið hefur þann háttinn á að gefa stjörnur fyrir hljóm annars vegar og flutning hins vegar. Víkingasvar fær einfaldlega fullt hús stiga, eða fimm stjörnur fyrir hvort tveggja. Skemmst er að minnast umsagnar um útgáfu á Baldri sem tímaritið fjallaði um fyrir um tveimur árum en þær upptökur þóttu einnig framúrskarandi og hlutu líka fimm stjörnur fyrir hljóm og fimm fyrir flutning.