EN

22. nóvember 2004

Sannarlega tilkomumiklir tónleikar framundan þann 2. desember.

Árið 1980 hóaði Robert King, tvítugur að aldri, saman nokkrum hljóðfæraleikurum og söngvurum sem höfðu áhuga á barokktónlist og upprunalegri eða sögulegri nálgun við hana. Hópurinn fékk hið tilkomumikla nafn King’s Consort og er nú löngu kominn í röð fremstu fulltrúa þessarar blómlegu greinar tónlistarheimsins. Robert King stýrir næstu tónleikum SÍ, fimmtudaginn 2. desember +++en þá verða leikin verk eftir vinina Johan Sebastian Bach og Georg Philipp Telemann. Af verkum Bachs á tónleikunum má geta þess að Magnificat í D-dúr hljómar nú í sjöunda sinn í flutningi hljómsveitarinnar, hljómsveitarsvíta nr. 3 í D-dúr í tíunda sinn en Kantata nr. 172, „Erschallet, ihr Lieder“ hefur aldrei verið leikin áður á tónleikum SÍ ekki frekar en nokkur verka Georg Philipp Telemann en nú verður tímabær breyting þar á. Einsöngvarar á tónleikunum verða þau Gillian Keith, Diana Moore, Gunnar Guðbjörnsson og Stephen Richardson. Að auki munu Hamrahlíðarkórarnir syngja undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Tilkomumiklir tónleikar framundan sem svo sannarlega vert er að heyra. Gul tónleikaröð Fimmtudag 2. desember 2004, kl. 19.30 Háskólabíói, miðaverð: 2.800 / 2.400 Hljómsveitarstjóri: Robert King Einsöngvarar: Gillian Keith, Diana Moore, Gunnar Guðbjörnsson og Stephen Richardson Kór: Hamrahlíðarkórarnir undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur Johan Sebastian Bach: Hljómsveitarsvíta nr. 3 í D-dúr, BWV 1068 Johan Sebastian Bach: Kantata nr. 172, „Erschallet, ihr Lieder“ Georg Philipp Telemann: Vatnamúsík, „Hamburger Ebb und Fluht“ Johan Sebastian Bach: Magnificat í D-dúr, BWV 243 Frá árinu 1987 hafa komið út hvorki fleiri né færri en 85 geisladiskar með King’s Consort hjá hinu vandaða enska útgáfufyrirtæki Hyperion. Þeir hafa selst í yfir milljón eintökum, hlotið fjölmörg verðlaun og lof gagnrýnenda. Henry Purcell og Georg Friedrich Händel eru fyrirferðarmiklir á diskaskrá hópsins en þar er einnig að finna tónlist eftir Bach, Vivaldi, Monteverdi, Mozart, Haydn, Telemann og fleiri. Auk þess að stjórna King’s Consort er Robert King listrænn stjórnandi Norrænu barokktónlistarhátíðarinnar í Svíþjóð og Alþjóðlegu orgelvikunnar í Nürnberg. Hann er einnig afar vinsæll gestastjórnandi hjá hljómsveitum og kórum austan hafs sem vestan. Alþjóðlegur hróður Kings hvílir ekki síst á gríðarlegri þekkingu hans á tónlist Purcells. Hann stjórnaði hátíð sem haldin var 1994-95 í Wigmore Hall í London undir verndarvæng Karls Bretaprins í tilefni 300. ártíðar Purcells og um svipað leyti kom út eftir hann yfirburðarit um tónskáldið. Þó King sé óumdeilanlega í hópi virtustu barokkstjórnenda í heimi, hefur hann einnig beint kröftum sínum að klassískri og rómantískri tónlist og að tónlist heimalands síns. Þeir Johan Sebastian Bach og Georg Philipp Telemann voru góðir vinir og mátu tónlist hvor annars mikils. Telemann var mun stærra nafn en kollegi hans, enda frægur um alla Evrópu. En frægðin er fallvölt og í lok átjándu aldar var tónlist Telemanns flestum gleymd. Orðstír Bachs hafði reyndar mætt svipuðum örlögum, en endurreisn hans hófst fyrr og varð afar víðtæk, eins og kunnugt er. Ef Telemanns var á annað borð getið á nítjándu öld var bent á óheyrilega afkastasemi hans (Händel sagði hann eiga jafn auðvelt með að semja átta radda fúgu og aðrir með að skrifa sendibréf) og því var slegið föstu að maður sem hefði samið yfir 3000 verk hlyti að hafa látið sér nægja að svamla á yfirborðinu. Það segir nokkuð um afstöðu manna að Philipp Spitta og Albert Schweitzer, sem skrifuðu frægar bækur um Bach, gerðu lítið úr kirkjukantötum Telemanns á meðan þeir lofuðu verk sem voru eignuð Bach, en hefur síðar komið í ljós að áttu upptök sín í penna Telemanns. En eftir því sem á tuttugustu öldina leið skildu menn æ betur dálæti Bachs á tónlist Telemanns, enda er hún einstaklega frískleg og hugmyndarík hvort sem litið er á laglínuferli eða hljómagang. Þeir vinirnir eiga svo sannarlega erindi hlið við hlið á tónleikaskrá. Telemann átti stóran þátt í að gera uppfinningu Lullys, frönsku hljómsveitarsvítuna, vinsæla í Þýskalandi og samdi mikið magn slíkra verka. Vatnamúsíkin um flóð og fjöru í Hamborg frá 1723 er stórskemmtileg tónlýsing á iðandi vatnsflaumi og mannlífi við Saxelfi og Hamborgarhöfn. Þriðja hljómsveitarsvíta Bachs var sennilega samin um 1730 fyrir stúdentahljómsveitina Collegium musicum, sem Telemann stofnaði á námsárum sínum við háskólann í Leipzig, en Bach stjórnaði á þessum árum. Gestir á kaffihúsi Zimmermans í Leipzig hafa því líklega fyrstir heyrt hinn yndislega Air-kafla (þennan á g-strengnum!), sem hvert mannsbarn þekkir nú á dögum. Söngverkin tvö á efnisskránni eru góð dæmi um það hvernig skylduverk geta orðið að ódauðlegum listaverkum. „Erschallet, ihr Lieder“, er ein af kantötunum sem Bach samdi fyrir hertogann Wilhelm Ernst og hirð hans í Weimar á meðan allt lék enn í lyndi, en þjónusta hans hjá hertoganum endaði árið 1717 með tæplega mánaðarvist í varðhaldi vegna óhlýðni við yfirvaldið. Magnificat í D-dúr frá 1723 er glæsiverk fyrir fimm einsöngvara, fimm radda kór og stóra hljómsveit með trompetum, pákum, flautum, óbóum, strengjum og fylgirödd. Þar tjaldaði Bach sem sé öllum þeim kröftum sem honum stóðu til boða, enda var honum örugglega enn í mun að sanna fyrir Leipzigbúum að hann væri vel að stöðu tónlistarstjóra í borginni kominn. Þegar staðan losnaði árið 1722 hafði Georg Philipp Telemann nefnilega verið efstur á óskalista yfirvalda.