7. desember 2004
Osmo Vänskä stýrir Hátíðartónleikum
Osmo Vänska var aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1993 til ársins 1996 og lagði sitt lóð á vogarskálarnar við listræna uppbyggingu hennar. Segja má að Osmo Vänskä sé á hátindi síns glæsilega ferils um þessar mundir og því er einstakur fengur að komu hans hingað til lands. Hann er tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Lathi í Finnlandi, auk þess sem hann er aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Minneapolis. +++Osmo er mjög eftirsóttur hljómsveitarstjóri og því fer drjúgur tími hans í ferðalög á milli tónleikasala um víða veröld þar sem hann stýrir helstu hljómsveitum heimsins. Nú snýr hann aftur í boði forseta Íslands, hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, og stýrir hátíðartónleikum sem haldnir verða fimmtudaginn 9. desember og hefjast kl. 19.30. Heiðursgestir forsetans á tónleikunum eru þau Maunu Koovisto, fyrrverandi forseti Finnlands, og frú. Efnisskrá tónleikanna samanstendur af íslenskum og finnskum tónverkum ern þau eru forleikur að Galdra Lofti eftir Jón Leifs, fiðlukonsert eftir Einojuhani Rautavaara fylgir í kjölfarið, sinfónía nr. 7 eftir Jean Sibelius og að lokum hljómar hið magnaða verk Geysir eftir Jón Leifs þar sem íslenskum náttúrufyrirbrigðum er lýst með afar skýrum dráttum og sterkum litum. Það er finnski fiðluleikarinn Jaakko Kuusisto sem leikur einleik á tónleikunum en margir minnast frammistöðu bróður hans Pekka Kuusisto á tónleikum SÍ á síðasta ári í Háskólabíói. KB-banki er styrktaraðili tónleikanna og mun að þeim loknum bjóða gestum til veislu í anddyri og sal Háskólabíós. Uppselt er á tónleikana.