EN

2. janúar 2005

Miðar eru óðum að seljast upp á Vínartónleikana

Fullyrða má að Vínartónleikarnir hafi skipað sér sess sem einir vinsælustu tónleikar Íslandssögunnar og í ár virðist engin breyting ætla að verða þar á, miðarnir rjúka út og eins gott fyrir áhugasama að hafa hraðar hendur. Efnisskráin er komin á netið! Saga Vínartónleikanna er einstök. Þeir fyrstu með þessu nafni voru haldnir árið 1971 og fram til ársins 1982 voru slíkir tónleikar af og til á dagskráa. Vínartónleikarnir hafa svo frá árinu 1982 verið árstíðabundinn, fastur liður á efnisskrá hljómsveitarinnar og ekkert lát virðist vera á vinsældum þeirra. +++ Margir líta orðið á Vínartónleikana sem jafn ómissandi hluta þess að fagna nýju ári og að skjóta upp flugeldum eða tendra blys. Óhætt er að lofa að enginn verður svikinn af þeirri flugeldasýningu í tónum sem framreidd verður í Háskólabíói dagana 5. til 8. janúar. Á tónleikunum mun Ingveldur Ýr Jónsdóttir, mezzósópran, koma fram en hún hefur meðal annars heillað gesti Íslensku óperunnar í sýningunni góðu Sweeney Todd þar sem hún syngur hlutverk frú Lóett. Ingveldur kom síðast fram með SÍ árið 2000 þegar hún söng í 9. sinfóníu Beethovens. Michael Dittrich er margreyndur þýskur hljómsveitarstjóri sem var meðal annars einn af þeim sem höfðu veg og vanda að heildarupptökum á verkum Strauss-bræðranna Johanns og Josephs fyrir Marco Polo útgáfufyrirtækið. Allar upplýsingar um miðasölu má fá í síma 545 2500. Miðasalan á netinu er svo ákaflega einföld og þægileg. Skoða!