18. janúar 2005
Akiko Suwanai handleikur fiðlu sem er einn mesti dýrgripur veraldar
Akiko Suwanai, sem leikur fimmtudagskvöldið 20. janúar með hljómsveitinni, vakti alþjóðlega athygli 1990 þegar hún vann Tsjajkovskíj-keppnina aðeins 17 ára gömul og varð þar með yngsti viðtakandi fyrstu verðlauna frá upphafi þessarar virtu keppni. Eftir sigurinn í Moskvu lauk hún námi sínu, m.a. hjá hinum fræga fiðlukennara Dorothy DeLay í Juilliardskólanum í New York, en hefur síðan skapað sér nafn sem einn fremsti fiðluleikari sinnar kynslóðar, þekkt fyrir +++einstaklega fallegan tón og ljóðræna nálgun við tónlistina. Hún leikur reglulega í Evrópu, Ameríku og Asíu, en hún er geysivinsæl í föðurlandi sínu, Japan. Á síðustu misserum hefur Akiko Suwanai m.a. leikið með Berlínarfílharmóníunni undir stjórn Charles Dutoit, komið fram á Páskahátíðinni í Lucerne undir stjórn Pierres Boulez og farið í tónleikaferðir með Philharmonia Orchestra og Tékknesku fílharmóníunni ásamt Vladimir Ashkenazy. Með þeim síðastnefndu hljóðritaði Suwanai fiðlukonserta Mendelssohns og Tsjajkovskíjs og fékk fyrir það mikið lof, eins og fyrir aðra geisladiska sem hún hefur leikið inn á síðan hún skrifaði undir samning við Universal (Decca, Philips) 1996. Akiko Suwanai mun handleika sannkallaðan dýrgrip á sviðinu í Háskólabíói. Hún er nefnilega svo lánsöm að fá fyrir tilstilli japanskrar stofnunar að leika á eina af frægustu fiðlum veraldar, „Höfrunginn“ svokallaða, sem Antonio Stradivari smíðaði árið 1714. Einn af fyrri eigendum þessa óviðjafnanlega hljóðfæris var sjálfur Jascha Heifetz.