24. janúar 2005
Ungir einleikarar úr Listaháskólanum spreyta sig með hljómsveitinni
Fimmtudaginn 27. janúar n.k. munu tveir nemendur úr tónlistardeild Listaháskóla Íslands, Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari og Sólveig Samúelsdóttir, mezzósópran, koma fram í sólóhlutverki með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Nemendurnir voru valdir í sérstakri samkeppni sem fór fram vorið 2004 en Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur um það samvinnu við Listaháskóla Íslands að gefa framúrskarandi nemendum tækifæri til að koma fram í sólóhlutverki með hljómsveitinni á opinberum tónleikum. Líklega dreymir alla tónlistarmenn +++um að komast einhvern tíma á tónleikapall með stórri hljómsveit í stórum sal og er það einstakt tækifæri fyrir efnilegt tónlistarfólk til að stíga sín fyrstu spor í heimi atvinnumennskunnar og um leið fá almennir áheyrendur tækifæri til að fylgjast með þessu unga tónlistarfólki sem síðar mun væntanlega vera í hópi þeirra sem leiða íslenskt tónlistarlíf til nýrra ávinninga. Mörgum eru enn minnisstæðir tónleikar á síðasta ári þegar alls fjórir nemendur stigu á svið og þóttu standa sig með miklum ágætum. Nú eru þeir hins vegar aðeins tveir og fá þ´vi hvor um sig rýmri tíma með hljómsveitinni. Hafdís Vigfúsdóttir leikur verk eftir Mozart og Carl Nielsen. Sólveig Samúelsdóttir syngur lög og óperuaríur eftir Rossini, Mahler og Bizet. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson. Miðaverð: kr. 1.500.- bekkur 1 - 24 kr. 1.000.- bekkur 25 - 28 Nemendaafsláttur er að öllu jöfnu veittur á tónleikadegi en nún a stendur nemum til boða að tryggja sér miða strax á þessum góðu kjörum (með 50% afslætti) 750.- og kr. 500.- Hafdís Vigfúsdóttir Hafdís Vigfúsdóttir er fædd árið 1984. Hún tók burtfararpróf í þverflautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs haustið 2002, þar sem kennari hennar um árabil var Guðrún S. Birgisdóttir. Eftir það lá leiðin í Listaháskóla Íslands til Martials Nardeau. Hafdís stefnir á að ljúka B. Mus. prófi þaðan vorið 2005. Að því loknu langar hana mikið að halda utan til frekara náms á sviði tónlistar. Sólveig Samúelsdóttir Sólveig Samúelsdóttir stundaði píanónám frá tíu ára aldri hjá Sigríði Ragnarsdóttur við Tónlistarskólann á Ísafirði og söng jafnframt með kór skólans. 16 ára gömul flutti hún frá Ísafirði til Reykjavíkur og hélt áfram píanónámi hjá Halldóri Haraldssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík. Sólveig hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík haustið 1997 og lauk þaðan 8. stigi vorið 2002 undir handleiðslu Elísabetar F. Eiríksdóttur söngkennara og Elínar Guðmundsdóttur píanóleikara. Haustið 2002 hóf hún nám við Listaháskóla Íslands og lýkur þaðan B. Mus. gráðu í söng vorið 2005. Aðalkennarar hennar við LHÍ eru Elísabet Erlingsdóttir söngkennari og Richard Simm píanóleikari. Sólveig fór með hlutverk Mirabellu í uppfærslu Óperustúdíós LHÍ og Íslensku óperunnar á Sígaunabaróni Johanns Strauss vorið 2004. Hún hefur auk þess komið fram sem einsöngvari við fjölmörg önnur tækifæri.