8. febrúar 2005
Sinfóníuhljómsveitin leikur með Placido Domingo á stórtónleikum í Egilshöll 13. mars
Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að samkomulag hefur náðst um það að Sinfóníuhljómsveit Íslands leiki á tónleikum Placido Domingo sem fyrirhugaðir eru í Egilshöll þann 13. mars næstkomandi. Athafnafólkið Þóra Guðmundsdóttir og Þorsteinn Kragh hafa undanfarin 2 ár unnið að því að fá stórtenórinn Placido Domingo hingað til lands, nú er ljóst að sá einstaki atburður er orðin að veruleika og munu íslenskir tónlistarunnendur loksins fá að njóta þessa frábæra listamanns. +++ Placido Domingo er óumdeilanlega einn af þeim stóru í heimi sönglistarinnar. Á ferli sínum hefur hann túlkað 119 hlutverk úr heimi óperubókmenntanna, enginn annar söngvari getur státað af svo miklum fjölda. Hvort sem höfundurinn heitir Mozart, Verdi, Berlioz, Puccini, Wagner eða Ginastera þá er víst að verk hans hafa hljómað í flutningi stórsöngvarans Placido Domingo. Nú styttist í að landinn fái að njóta hæfileika hans. Óhætt er að fullyrða að einstök upplifun bíði þeirra sem tónleikana sjá og heyra og eftirvæntingin er einnig mikil í herbúðum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Placido Domingo heldur einungis um 10 tónleika á ári og er okkur því mikill heiður sýndur með heimsókn hans hingað til landsins. Auk hans mun Ana Maria Martinez syngja á tónleikunum en hún hefur hlotið lof gagnrýnenda um heim allan og er talin ein af efnilegustu sópransöngkonum í dag. Glæsileikinn verður svo fullkomnaður með þátttöku Óperukórsins. Hljómsveitarstjóri verður Eugene Kohn. Þeir sem vilja ganga frá miðakaupum sínum á netinu, geta gert það á: www.midi.is. Einnig er hægt er að nálgast miða í öllum verslunum Skífunnar á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í verslunum BT á Akureyri og á Selfossi.Tónleikarnir verða sem fyrr sagði haldnir þann 13. mars, 2005, kl. 20.00 í Egilshöll. Nánari upplýsingar á domingo.is.