EN

15. febrúar 2005

Galdraþing Háskóla Íslands strax að loknum bíótónleikunum 19. febrúar

Hugvísindastofnun hefur umsjón með opnu málþingi um galdra í framhaldi af sýningu á þöglu kvikmyndinni Häxan í Háskólabíói við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónlist Barða Jóhannssonar. Fjórir fræðimenn munu fjalla um ýmsar hliðar á þessu merkilega menningarfyrirbæri. +++ Torfi H. Tulinius, prófessor í frönsku og miðaldabókmenntum, mun fjalla um breytilega afstöðu miðaldamanna til galdra og hvernig smám saman einn angi hins yfirnáttúrulega, galdrar, verða fyrir vaxandi fordæmingu. Terry Gunnell, dósent í þjóðfræði, mun fjalla um nornir á Íslandi og segja frá sérstöðu gandreiða hér á landi miðað við nágrannalöndin. Magnús Rafnsson, forsvarsmaður Strandagaldurs og meistaranemi við Háskóla Íslands, mun fjalla um kukl á Íslandi fyrr á öldum og velta því fyrir sér hvers vegna það voru fremur karlar sem voru ofsóttir hérlendis en konur erlendis. Loks mun Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, fjalla um nornaofsóknir frá femínísku sjónarmiði. Sá ótti við konur og kvenleika sem braust út í nornaofsóknunum endurspeglaði trúarlegt og þekkingarlegt óöryggi. Nornirnar voru notaðar til að staðfesta það endanlega að djöfullinn væri til. Þingið stendur í klukkustund í sal 2 í Háskólabíói. Allir eru velkomnir.