EN

16. mars 2005

Rumon Gamba forfallaður. Owain Arwel Hughes kemur í staðinn.

Rumon Gamba aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands getur því miður ekki stjórnað hljómsveitinni á tónleikum hennar fimmtudaginn 17. og föstudaginn 18. mars. Að sama skapi verður hann ekki á stjórnendapallinum á kynningartónleikum sem fyrihugaðir eru á föstudagsmorgni í Háskólabíói eða á tónleikum í Vestmannaeyjum sem fyrirhugaðir eru á laugardaginn. Í hans stað kemur samlandi hans, breski stjórnandinn Owain Arwel Hughes, til með að halda um tónsprotann. Efnisskráin verður sú sama og áður hefur verið auglýst. +++ Owain Arwel Hughes var nýlega ráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri hjá Konunglegu Fílharmóníusveitinni í Bretlandi. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir stjórn á kórverkum en þess má geta að hann var kórstjóri Huddersfield Choral Society á árunum 1980 til 1986. Honum er að miklu leyti þakkað fyrir sterka uppbygginu Álaborgarsinfóníunnar en þar gegndi hann stöðu aðalhljómsveitarstjóra um nokkurt skeið. Orðstýr hans sem hljómsveitarstjóri hefur vaxið jafnt og þétt enda stýrir hann reglulega öllum stærstu hljómsveitum Bretlandseyja og er ein aðaldriffjöður á bak við hina velsku Proms-hátíð. Owain Arwel Hughes hefur margsinnis komið fram í sjónvarpi í þáttum um klassíska tónlist svo sem "Music for the Masses" og "The Much Loved Music Show." Hljómsveitarstjórinn fékk mikið lof frá Sir William Walton þegar hann stýrði flutningi á verki hans Belshazzar's Feast. Líkt og glöggir gestir hafa eflaust tekið eftir stóð til að aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Rumon Gamba, héldi um tónsprotann á þessum tónleikum en því miðu forfallaðist hann. En maður kemur í manns stað og Owain Arwel Hughes var fenginn í staðinn.