EN

23. mars 2005

Hver stórviðburðurinn rekur annan í apríl

Aprílmánuður verður sérstaklega viðburðarríkur hjá hljómsveitinni. Fernir tónleikar framundan og ekki ofsögum sagt að um stórviðburði verði að ræða. Fjölskyldutónleikar, tvennir tónleikar töframannsins Vengerovs, Daði Kolbeinsson leikur stórbrotinn óbókonsert og Fordæming Fást flutt í fyrsta sinn í heild sinni hér á landi. Af nógu er að taka. +++ 2. apríl Frábær fjölskylduskemmtun Örn Árnason verður kynnir og sögumaður á fjölskyldutónleikum 2. apríl. Dagskráin er helguð H.C. Andersen en hann fæddist þennan dag fyrir 200 árum, svo víða um heim verður hans minnst. Miðaverði er stillt í hóf, aðeins 1000 krónur fyrir börn og 1500 fyrir fullorðna. 7. og 9. apríl Fyrst var það Paganini, nú er það Vengerov Maxim Vengerov hefur verið nefndur sem einn mesti fiðluleikari heimsins í dag. Dagana 7. og 9. apríl verður þessi mikli töframaður á fjölum Háskólabíós en að þessu sinni söðlar hann um og leikur á djúpraddaðri systur fiðlunnar, víóluna. Hann mun leika konsert eftir vin sinn Júsúopv en það er ekki allt því að í verkinu mun Vengerov einnig stíga ástríðufullan tangó.... Miðasalan er á netinu. 14. apríl Tíunda sinfónía Beethovens Sinfónía nr. 1 eftir Brahms hefur stundum verið kölluð tíunda sinfónía Beethovens. Frumflutningur á verki Páls Pampichlers Pálssonar og stórbrotinn óbókonsert þar sem innanbúðarmaðurinn Daði Kolbeinsson verður í hlutverki einleikarans. Miðasalan er á netinu. 28. apríl. Frumflutningur á stórvirki Kaflar úr verki Hector Berlioz hafa hljómað stöku sinnum á tónleikum en verkið hefur aldrei áður verið flutt í heild sinni. Það er gleðiefni að í hópi framúrskarandi einsöngvara skuli þeir vera Kristinn Sigmundsson sem hefur ósjaldan glímt við hlutverk hins djöfullega Mefistófelesar og einnig mun Ólafur Kjartan Sigurðarson syngja. Miðasalan er á netinu