31. mars 2005
Styttist í komu Maxim Vengerov. Leikur á víólu og rafmgansfiðlu og dansar tangó á tónleikum
Nú styttist í komu rússneska fiðlusnillingsins Maxim Vengerov en hann mun leika á tvennum tónleikum ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands dagana 7. og 9. apríl. Maxim Vengerov er óumdeilanlega ein skærasta stjarna hins klassíska heims um þessar mundir og koma hans hingað til lands er stórviðburður þótt ofnotkun þessa orðs undanfarin ár, í ljósi ört vaxandi tónleikahalds, hafi þynnt merkingu þess. En það er engum blöðum um það að fletta að hann er risi í listaheiminum og er á fáa hallað þegar fullyrt er að þessir tónleikar séu einn athyglisverðasti viðburður tónleikaársins hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.+++ Þótt Vengerov sé stoltur eigandi frægrar Stradivariusarfiðlu hefur hann mikið yndi af því að spila á önnur hljóðfæri, eins og Íslendingar hafa þegar fengið að kynnast, en hann lék jöfnum höndum á Stradivariusinn og barokkfiðlu á tónleikum sínum á Listahátíð í Reykjavík 2002. Á tónleikunum með Sinfóníunni mun hann hinsvegar, auk þess að leika á rafmagnsfiðlu, handleika djúpraddaðri systur fiðlunnar, víóluna, sem hann hefur náð frábærum tökum á síðan hann hóf að leika á hana fyrir aðeins tveimur árum. „Með víólunni get ég sagt hluti sem ég get ekki sagt með fiðlunni,“ segir Vengerov. „Tónsviðið er auðvitað dýpra og neðsti strengurinn er í miklu uppáhaldi hjá mér. Að spila á fiðlu er eins og að keyra sportbíl en að leika á víólu er eins og að vera undir stýri á kraftmiklum trukki.“ Það sem gerir tónleikana æði sérstaka er að Vengerov mun ekki láta sér nægja að leika á hljóðfæri, í einum kafla verksins mun hann leggja víóluna frá sér og stíga ástríðufullan tangó við dansfélaga sinn sem kemur með honum eingöngu til þess að stunda fótafimina. Teknir verða frá nokkrir fermetrar á sviðinu sérstaklega til þessa. Vengerov átti að leika á opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í september árið 2003 en ekkert varð þá úr komu hans vegna veikinda. Loksins fáum við að heyra kappann með Sinfóníuhljómsveitinni. Tónleikarnir eru eins og áður sagði 7. og 9. apríl.