13. apríl 2005
Daði Kolbeinsson leikur óbókonsert eftir Richard Strauss
Á tónleikum hljómsveitarinnar miðvikudaginn 14. apríl verður fyrsti óbóleikari SÍ, Daði Kolbeinsson, í einleikshlutverki. Á efnisskránni er óbókonsert eftir Richard Strauss. Daði hefur hrifið fastagesti á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands með glæsilega útfærðum einleiksstrófum á óbó og englahorn síðustu þrjá áratugi. Það er mikið en um leið allt of sjaldgæft gleðiefni að fá nú tækifæri til að heyra hann leika konsert með hljómsveitinni sinni. Verkið hefur einungis einu sinni verið leikið áður á tónleikum hljómsveitarinnar en það var árið 1981 undir stjórn Jean-Pierre Jacquillat en einleikari þá var Maurice Bourgue. +++ Richard Strauss sagði einhvern tíma að verkin sem hann skrifaði á síðustu árum sínum væru lítið annað en „úlnliðsæfingar“, en fáum öðrum en höfundinum dytti víst í hug að líta þannig á meistaraverk eins og seinni hornkonsertinn, Vier letzte Lieder eða óbókonsertinn. Síðasttalda verkið er einn af hápunktunum í óbóbókmenntum tuttugustu aldar og væri vafalaust oftar flutt ef ekki væri fyrir þær gríðarlegu kröfur sem það gerir til einleikarans. Hljómsveitarstjórinn Matthias Bamert er óvenju fjölhæfur tónlistarmaður: tónskáld, óbóleikari og hljómsveitarstjóri með afar breiðan verkalista. „Á tímum aukinnar sérhæfngar getur Bamert stjórnað hverju sem er og farist það vel úr hendi,“ var skrifað um hann í Financial. Enginn hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands oftar en Páll Pampichler Pálsson. Á fjörutíu árum, frá 1957 til 1997, stýrði hann hljómsveitinni yfr þrjú hundruð sinnum. Páll hefur helgað sig tónsmíðum undanfarinn áratug og sent frá sér fjölda verka. Hann samdi hljómsveitarverkið Epitaph í minningu systur sinnar, Eriku Kummer. Verkið var frumflutt í júní 2002 af Sinfóníuhljómsveitinni í Graz, en hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Sinfónía nr. 1 í c-moll eftir Johannes Brahms hefur stundum verið kölluð „tíunda sinfónía Beethovens“, en í ljósi þess að hún er löngu búin að vinna sér sess sem eitt af meistaraverkum tónlistarsögunnar er víst óhætt að tala einfaldlega um fyrstu sinfóníu Brahms. Skuggi meistarans frá Bonn var vissulega yfrþyrmandi og þrúgandi og lá eins og mara á sporgöngumönnum hans, enda sagði Brahms að menn gætu „ekki ímyndað sér hvernig það er fyrir mann eins og mig að heyra sífellt svona risa þrammandi fyrir aftan sig.“ Efnisskrá 14. apríl 2005 Háskólabíó, fimmtudagur kl. 19.30 Hljómsveitarstjóri: Mathias Bamert Einleikari: Daði Kolbeinsson Páll P. Pálsson: Epitaph Richard Strauss: Óbókonsert Johannes Brahms: Sinfónía nr. 1