EN

22. apríl 2005

Stórviðburður þeagar Fordæming Fást verður flutt í heild sinni í fyrsta sinn hér á landi

Fordæming Fást eftir Hector Berlioz er á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands næstkomandi fimmtudag kl. 19.30. Verkið er talið meðal merkustu tónverka rómantíska tímans og einn af hápunktunum í þeim ríkulegu tónbókmenntum sem byggðar eru á meistaraverki Goethes. Fordæmingu Faust var reyndar tekið fálega af Parísarbúum á sínum tíma, þeir létu sig almennt vanta á frumflutninginn og segir sagan að Berlioz hafi tekið fátt jafn nærri sér á sínum tónskáldaferli. Síðar hélt hann í tónleikaferð til Rússlands og Þýskalands og fékk þar glimrandi viðtökur við verkinu og má segja að þarnnig hafi hann hlotið nokkra uppreisn æru. Skoða efnisskrá! Tónleikarnir á fimmtudaginn verða vafalítið mikilfenglegir, fjórir einsöngvarar og fjöldi söngmanna taka þátt í flutningi verksins. Kristinn Sigmundssson fer með burðarhlutverk sjálfs Mefistófelesar, +++en hann er ekki ókunnugur hlutverkinu, hefur leyst það af hendi með glæsibrag víða um heim. Ólafur Kjartan Sigurðarson er einnig meðal einsöngvara ásamt þeim Beatrice Uria-Monzon og Donald Kaasch. Fleiri raddir munu hefja upp raust sína á sviðinu, Karlakórinn Fóstbræður kemur fram undir stjórn Árna Harðarsonar, Óperukórinn í Reykjavík og unglingakór Söngskólans einnig og þar heldur Garðar Cortes um stjórnartauma. Hljómsveitarstjóri er Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Flutningur verksins er heilmikill viðburður, enda hefur verkið aldrei fyrr hljómað í heild sinni hér á landi, þó svo að kaflar úr þessu stórvirki hafi hljómað stöku sinnum á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í áranna rás, sér í lagi hinn vinsæli Rákóczi-mars. Tónleikarnir eru sem fyrr segir fimmtudaginn 28. apríl og hefjast klukkan 19.30.