2. maí 2005
Fílharmónískt rokk - Beethoven djammar með Deep Purple
Það verða sannarlega brotnir brotnir niður múrar á milli tónlistartegunda á óvenjulegum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudaginn 6. og laugardaginn 7. maí. Með þá skoðun að leiðarljósi að góð tónlist sé einfaldlega góð tónlist hefur þýski hljómsveitarstjórinn Friedemann Riehle sett saman efnisskrá þar sem Ludvig van Beethoven blandar geði við félagana í Deep Purple og Gustav Mahler hittir fyrir hina einu sönnu Pink Floyd. Rokktónlist hefur áður hljómað í meðförum sinfóníuhljómsveita en sjaldan hefur frumkraftur rokksins haldist jafn óskertur í yfirfærslunni milli miðla. Að mati Riehles eru tengslin á milli gömlu klassísku meistaranna og ofur-rokkhljómsveitanna sem urðu vinsælastar á 8. áratugnum greinileg þegar að er gáð. Þegar ró færist yfir tónsmíðar Gustavs Mahler má greinilega heyra hvaðan Pink Floyd hefur eina fyrirmyndum sínum. Að sama skapi finnur Riehle sterk tengsl á milli tónlistar Beethovens og Deep Purple, þar sé að finna sanna ákefð, “farið er á bólakaf í sköpun og ekki skeytt um að draga andann fyrst.” Miðasalan er á netinu +++ Flytjendur á tónleikunum auk Sinfóníuhljómsveitarinnar verða þrjár frábærar ungar tékkneskar söngkonur og landi þeirra, trommuleikarinn František Hönig, sem hefur m.a. orðið þess heiðurs aðnjótandi að spila með Frank heitnum Zappa. Þýski hljómsveitarstjórinn Friedemann Riehle hóf tónlistarferil sinn sem gítarleikari en sneri sér ungur að hljómsveitarstjórn. Hann stofnaði eigin kammersveit í Esslingen á námsárunum og vakti á sér athygli árið 1993 með frábærri frammistöðu í keppni ungra stjórnenda í Busteni-Sinaia í Rúmeníu. Undanfarin ár hefur hann starfað mikið í Tékklandi og hefur stjórnað flestum hljómsveitum landsins. Hann var listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar í Marienbad (Mariánské Lázně) 1992-93 og hefur stjórnað hinum vinsælu nýárstónleikum í Prag frá 1995. Hann frumflutti dagskrá sína Philharmonic Rock Night með Janáček-fílharmóníunni í Prag árið 2001 og hefur síðan flutt hana víðar við góðar undirtektir. Tónkleikarnir verða sem áður sagði föstudaginn 6. maí klukkan 19.30 og laugardaginn 7. maí klukkan 17.00 Á efnisskránni eru meðal annars Woman from Tokyo og Smoke on the water með Deep Purple, Echoes með Pink Flyod og Kashmir með Led Zeppelin, í útsetningu Riehles. Einnig verða brot úr þekktum verkum Beethovens, Mahlers og Mússorgskíjs.