9. maí 2005
Ashkenazy stjórnar erfiðustu sinfóníu Mahlers
Það er alltaf viðburður þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Framlag hans til uppbyggingar hljómsveitarinnar og listrænnar mótunar hennar er mikið og hér steig hann sín fyrstu spor sem hljómsveitarstjóri. Í janúar 2001 stjórnaði Vladimir Ashkenazy Sinfóníuhljómsveit Íslands á ný eftir nokkurt hlé. Ári síðar var hann gerður að heiðursstjórnanda hljómsveitarinnar og hefur síðan snúið aftur á hverju starfsári og stjórnað stórvirkjum eftir Elgar, Britten og nú Mahler. Efnisskráin er komin á netið!+++ Gustav Mahler veigraði sér við að semja níundu sinfóníu sína, enda var það þekkt staðreynd að tónskáld áttu það til að hrökkva hastarlega upp af um leið og þeir voru komnir með níu sinfóníur á samviskuna. Margir hafa fullyrt að sinfónían sé sú erfiðasta sem hljóðfæraleikarar glími við en bæta jafnan við að því erfiði fylgi ríkuleg laun takist vel upp. Rangt var farið með þegar fullyrt var að þetta væri í fyrsta skipti sem Sinfóníuhljómsveit Íslands tækist á við verkið, hið rétta er að það var áður á dagskrá árið 1997 og þá undir stjórn Petri Sakari. Tónleikarnir, sem eru í rauðri áskriftarröð, verða haldnir fimmtudaginn 12. maí í Háskólabíói og hefjast þeir klukkan 19.30. Miðasalan á netinu er alltaf opin!