10. maí 2005
Tónlistargagnrýnandi BBC hampar upptökum SÍ á Tónaljóðum Sibeliusar
Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveitarstjórinn Petri Sakari voru valin bestu flytjendur Tónaljóða Sibeliusar sem byggð eru á ævintýrum kappans Lemminkäinens í Kalevalakvæðunum finnsku, nú fyrir skemmstu í þætti Breska útvarpsins BBC, CD Review. Tónlistargagnrýnandinn Hilary Finch bar saman níu útgáfur Lemminkäinen svítunnar. +++ Brot voru leikin úr hverri upptöku og í samanburðarúrtakinu voru auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Petris Sakari - Osmo Vänskä og Sinfóníuhljómsveitin í Lahti, Mikko Frank og Sænska útvarpshljómsveitin; eistnesku feðgarnir Neeme Järvi með Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg, og Paavo Järvi með Konunglegu fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi, sir Colin Davis og Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Jukka-Pekka Saraste og Toronto-sinfóníuhljómsveitin, sir Alexander Gibson og Skoska þjóðarhljómsveitin og loks Leif Segerstam og Fílharmóníusveitin í Helsinki. Eftir miklar vangaveltur komst Hilary Finch að því að þrjár útgáfur af níu væru bestar. Það voru þær með Osmo Vänskä og Lahti hljómsveitinni, Mikko Frank og Sænsku útvarpshljómsveitinni og Petri Sakari og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Morgunblaðið greindi frá þessu.