EN

25. maí 2005

Yuri Bashmet er án ef einn mesti tónlistarmaður samtímans

Fullyrðingin hér að ofan er fengin úr The Times og umfjöllun blaðsins um hinn mikla meistara víólunnar. Nú er rétt rúm vika í komu hans til landsins en tónleikar hans og SÍ eru liður í Listahátíð í Reykjavík. Bashmet ólst upp í Lvov í Úkraínu og vildi gerast gítaristi í bítlabandi. Víóluleikurinn varð þó ofan á, enda sýndi hann einstaka hæfileika á því sviði. +++ Hann nam við Tónlistarháskólann í Moskvu frá 1971 og var ráðinn prófessor við hann 1976, yngstur allra sem hefur hlotnast sá heiður. Sama ár sigraði hann í alþjóðlegu víólukeppninni í München og þá komst ferill hans á flug. Hann var fyrsti víóluleikarinn sem hélt einleikstónleika í frægum tónlistarhúsum á borð við Concertgebouw í Amsterdam, Musikverein í Vín, La Scala í Mílanó og Carnegie Hall í New York, hefur átt mikinn þátt í að auka áhuga tónskálda á víólunni og hefur frumflutt fjölda tónverka. Náið samstarf hans við Alfred Schnittke vakti mikla athygli og meðal annarra tónskálda sem hafa samið verk fyrir hann eru John Tavener, Giya Kancheli, Poul Ruders, Sofia Gubaidulina og Mark-Anthony Turnage. Þeir eru líka ófáir tónlistarmennirnir sem Bashmet hefur spilað með, en meðal þeirra má nefna Sviatoslav Richter, Isaac Stern, Mstislav Rostropovich, Mörthu Argerich, Gidon Kremer, Anne-Sophie Mutter, Maxim Vengerov, Borodin-kvartettinn og Jean-Yves Thibaudet. Bashmet hefur leikið með öllum fremstu sinfóníuhljómsveitum heims, en árið 1992 stofnaði hann hljómsveitina Moskvueinleikarana, sem samanstendur af hljóðfæraleikurum sem kallaðir hafa verið „rjómi hinnar nýju kynslóðar”. Tónleikarnir hefjast klukkan 19.30. Efnisskrá þeirra er sem hér segir: Benjamin Britten: Tvær andlitsmyndir - fyrir víólu og strengi Dímítríj Sjostakovits: Sinfónía fyrir víólu og strengi Franz Hofmeister: Víólukonsert no 1 í D dúr Franz Schubert: Sinfónía nr. 3