EN

17. ágúst 2005

Endurnýjun áskrifta í fullum gangi - almenn sala hefst 1. september

Um þessar mundir er starfsfólk SÍ í óða önn að endurnýja áskriftarskírteini, en áskrifendur hafa nokkurs konar forkaupsrétt á því sæti sem þeir höfðu á síðasta ári. Sala á einstaka tónleika utan raða hefst 1. september. Fyrstu tónleikar vetrarins eru aldeilis glæsilegir en gestur Sinfóníúhljómsveitarinnar og aðalhljómsveitarstjórans Rumon Gamba það kvöld verður Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari. +++Það er ekki ofsögum sagt að Víkingur hafi vakið mikla athygli fyrir leik sinn undanfarin ár en hann er nú nemandi við hinn virta tónlistarháskóla Julliard í New York og hefur verið frá árinu 2002. Við afhendingu íslensku tónlistarverðlaunanna síðasta vetur var hann sæmdur titlinum "Bjartasta vonin" í flokki sígildrar tónlistar. Á tónleikunum, sem verða þann 10. september, mun Víkingur leika Píanókonsert í G dúr eftir Maurice Ravel.