EN

6. september 2005

Víkingur gefur tóninn fyrir veturinn

Á Opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, laugardaginn 10. september klukkan 17.00 (Efnisskráin er komin á netið) mun píanóleikarinn ungi, Víkingur Ólafsson, leika píanókonsert í G-dúr eftir Maurice Ravel, sem sumir hafa kallað skemmtilegasta píanókonsert 20. aldarinnar.+++ Víkingur Ólafsson hélt einleikstónleika í Salnum í janúar 2005 og voru menn á einu máli um að hér væri kominn einn eftirtektarverðasti tónlistarmaður Íslands af yngri kynslóðinni, enda þurfi hann að flytja debut-efnisskrá sína tvö kvöld í röð vegna mikillar eftirspurnar. Víkingur var valinn „bjartasta vonin“ í flokki sígildrar tónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2004. Rumon Gamba fer að verða óþarfi að kynna, hann er orðinn “besti vinur” tónleikagesta og það er mál manna að undir hans stjórn dafni Sinfóníuhljómsveit Íslands einstaklega vel. Rumon hefur nú fjórða ár sitt sem aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi og verður mjög áberandi á hljómsveitarstjórapallinum í vetur. Æfingar fyrir tónleikana hefjast á morgun, miðvikudaginn 7. september í Háskólabíói. Víkingur hefur verið hér á landi meira og minna í sumar og æfir sig daglega í hartnær 6 klukkustundir. Að tónleikunum loknum snýr hann sér aftur að námi í Juilliard tónlistarháskólanum, sem er einn sá virtasti sinnar tegundar í heiminum án þess á nokkurn sé hallað. Efnisskrá tónleikanna er eftirfarandi: George Gershwin: Girl crazy, forleikur Maurice Ravel: Píanókonsert í G-dúr Dímítríj Sjostakovitsj: Suite for Variety Orch.nr.1 Dímítríj Sjostakovitsj: Tahiti trott Leonard Bernstein: Fancy free, ballett Miðasalan er í fullum gangi: