EN

8. september 2005

Rumon Gamba heillar PROMS gesti upp úr skónum

Rumon Gamba aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stýrði á dögunum velsku þjóðarhljómsveitinni í Royal Albert Hall á einum hinna svokölluðu PROMS-tónleika sem þar eru haldnir öll sumur. Það er skemmst frá því að segja að gagnrýnandi Evening Standard, Barry Millington, er yfir sig hrifinn af frammistöðu hljómsveitarstjórans +++og segir meðal annars að af öllum þekktu listamönnum sem hafi komið fram á PROMS í sumar hafi túlkun Gamba hrifið hann einna mest. Á efnisskrá tónleikanna var meðal annars fjórða sinfónía Tsjajkovskíjs og samkvæmt Millington, tókst Gamba að finna á verkinu áður óþekkta fleti, og pússa nokkra hendingar verksins svo glæsilega að þær fengu notið sín sem aldrei fyrr. Gagnrýnandinn klikkir út með því að benda öðrum hljómsveitarstjórum á að þeir ættu að taka Rumon Gamba sér til fyrirmyndar! Enn eru sæti laus á tónleikana á laugardaginn og því ekki úr vegi að sjá Rumon á sviði og heyra túlkun hljómsveitarinnar og píanóleikarans Víkings Heiðars Ólafssonar undir hans stjórn.