EN

14. september 2005

Diddú er ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar og hefur verið í ein þrjátíu ár

Fáar söngkonur, íslenskar, hafa átt jafn góðu gengi að fagna og Sigrún Hjálmtýsdóttir eða Diddú eins og við þekkjum hana sjálfsagt best. Á þrjátíu ára ferli hefur hún sungið sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar, fyrst með þjóðlagasveitinni Spilverki þjóðarinnar og síðar við hin ýmsu tækifæri á fjölda platna og geisladiska, í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum, í óperuuppfærslum og tónleikum bæði hér á landi og erlendis. Listinn er langur og glæsilegur. Í næstu viku mun Diddú syngja ásamt Sinfóníuhjómsveit Íslands á tvennum tónleikum +++og á efnisskránni verða mörg af uppáhalds “númerum” hennar úr heimi óperubókmenntanna. Diddú kom fyrst fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir tuttugu árum en hefur síðan sungið við ýmis tækifæri með hljómsveitinni. Diddú hefur sungið bæði með José Carreras, á tónleikum í Laugardalshöll árið 2001 og Placido Domingo í Egilshöll fyrr á þessu ári. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Kurt Kopecky, en hann hefur verið hljómsveitarstjóri Íslensku óperunnar frá haustinu 2003. Tónleikarnir verða fimmtudaginn 22. og föstudaginn 23. september næstkomandi í Háskólabíói. Miðasalan er hafin og hægt að kaupa miða á vefsíðuni. sinfonia.is, eða í miðasölu Sinfóníuhljómsveitarinnar í Háskólabíói, sími 545 2500. Miðaverð er 2900 og 2500 krónur.