EN

26. september 2005

5. sinfónía Beethovens undir stjórn Anne Manson

Fimmtudaginn 29. september verður fimmta sinfónía Beethovens flutt í Háskólabíói á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Tónverkið er eitt það dáðasta í tónlistarsögunni og upphafsstefið þekkir hvert mannsbarn: Ta – ta –ta –ta... „Þannig banka örlögin á dyrnar“, sagði Ludwig van Beethoven um upphafið að fimmtu sinfóníu sinni. Engir upphafstaktar hafa náð þvílíkri frægð, og ekkert verk Beethoven hefur haft jafn mikil áhrif á síðari kynslóðir. Hinn mikli dramatíski kraftur sem í verkinu býr hefur ekkert dvínað á tvöhundruð árum. Barátta tónskáldsins við eigin örlög, heyrnarleysi og einmanaleika verður næstum áþreifanleg fyrir eyrum manns. +++ Anne Manson hefur vegnað einstaklega vel sem hljómsveitarstjóra undanfarin ár og áunnið sér virðingu kollega sinna og áheyrenda víða um heim. Hún er ein af þeim fjölmörgu konum sem undanfarið hafa látið að sér kveða sem hljómsveitarstjórar, og hefur sjálf komist í sögubækurnar fyrir að hafa fyrst kvenna stjórnað óperuflutningi á Salzburg-hátíðinni. Einnig verður á dagskrá þetta kvöld flautukonsert eftir Kalevi Aho en það er engin önnur en Sharon Bezaly sem leikur. Um hana sagði tónskáldið: „Þegar ég heyrði Sharon Bezaly leika flautuverk mitt, Solo III, í fyrsta sinn, fannst mér ég vera í návist kraftaverkakonu. Sharon Bezaly er stórfenglegasti flautuleikari sem ég hef nokkru sinni heyrt.“ Síðast en ekki síst verður verk Þorsteins Haukssonar, Bells of earth, á dagskránni. Gagnrýnendur hafa keppst við að lofa verkið og sumir vilja meina að það „hápunkturinn á glæsilegum tónsmíðaferli Þorsteins Haukssonar,“ stórfenglegt verk...” Miðasala á tónleikana er í fullum gangi. Kaupa miða!