EN

17. október 2005

Fernir skóla- og kynningartónleikar framundan í þessari viku

Í þessari viku mun Sinfóníuhljómsveit Íslands halda ferna skóla- og kynningartónleika í Háskólabíói, þá fyrstu á morgun, þriðjudag kl. 11.00 en þá munu nemendur frá Menntaskólanum við Sund heiðra hljómsveitina, aðra á miðvikudag kl. 9.30 en þá koma gestir frá Iðnskólunum í Hafnarfirði og Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Klukkan 11.00 sama dag er svo komið að nemendum Menntaskólans í Reykavík. Fimmtudaginn 20. október klukkan 10.30 er öllum eldri borgurum boðið á tónleika en einnig eru væntanlegir gestir frá Háskólum Íslands og Reykjavíkur. +++ Tónleikarnir eru u.þ.b. 50 mínútna langir. Áhugasamir geta nálgast bók um starfsárið sér að kostnaðarlausu í anddyri Háskólabíós fyrir tónleikana. Hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen frá Finnlandi og einleikari er Sigrún Eðvaldsdóttir, konsertmeistari. Efnisskrá er eftirfarandi: Johann Strauss: Leðurblakan, forleikur Edouard Lalo: Symphonie Espagnole, 1. þáttur Bela Bartók: Tveir rúmenskir dansar Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 7, 3. og 4. þáttur Þrátt fyrir ungan aldur hefur Eva Ollikainen en hún er fædd 1982 komið miklu í verk. Hún stundaði nám hjá Jorma Panula og Leif Segerstam í Sibeliusar-akademíunni í Helsinki. Árið 2003 vann hún til fyrstu verðlauna í alþjóðlegu Jorma Panula hljómsveitarstjórakeppninni. Í ár var hún valin til að taka þátt í alþjóðlegri hljómsveitarstjóra-akademíu í London en þar hefur hún verið að vinna með Kurt Mazur og Lundúna fílharmóníuhljómsveitinni og Fílarmóníuhljómnsveitinni og stjórnanda hennar Christoph von Dohnányi. Eva er greinilega kona sem á framtíðina fyrir sér og bíða hennar spennandi verkefni á næstu árum. Sigrún Eðvaldsdóttir hóf fiðlunám 5 ára gömul hjá Gígju Jóhannsdóttur en lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1984 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og tók Bachelor-gráðu frá Curtis tónlistarháskólanum í Philadelphiu 1988. Hún hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra fiðlukeppna; varð í öðru sæti í Leopold Mozart keppninni árið 1987, hlaut bronsverðlaun í Síbelíusar keppninni árið 1990 og önnur verðlaun í Carl Flesch keppninni árið 1992. Sama ár hlaut hún bjartsýnisverðlaun Brøste. Hennar er getið sem eins af áhugaverðustu fiðluleikurum framtíðarinnar í bók Henry Roth: Violin Virtuosos from Paganini to the 21st Century. Hún hefur gegnt stöðu 1. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 1998 og margoft komið fram sem einleikari með hljómsveitinni. Árið 1998 var Sigrún sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf sín á sviði tónlistar.