EN

21. október 2005

Barbara Bonney syngur sönglög eftir Grieg - aðeins örfá sæti laus

Fimmtudaginn 27. október mun söngkonan einstaka Barbara Bonney syngja ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Barbara Bonney er stórstjarna í heimi klassískrar sönglistar og ekki furða. Hún þykir sérlega fjölhæf og er á heimavelli hvort sem er í óperu eða ljóðasöng, barokktónlist eða harðsvíruðustu nútímaverkum. Barbara Bonney hefur svo sannarlega unnið sér inn fyrir því hóli sem hún fær og til marks um ákveðni hennar og dugnað til að komast áfram má geta þess að hún söng 40 óperuhlutverk á fjórum árum við óperuhúsið í Darmstadt og geri aðrir betur. +++ Allir helstu hljómsveitarstjórar heimsins keppast um að vinna með henni. Hún hefur nú sungið í öllum stærstu óperuhúsum heimsins. Hún fékk Gramophone-verðlaunin árið 2000 fyrir geisladisk sinn með norrænum sönglögum og nú er komið að Íslendingum að fá að njóta listar þessarar stórmerku söngkonu. Norræn tónlist hefur ávallt verið henni hjartfólgin, og ekki spillir fyrir að hún talar sænsku reiprennandi, enda var hún um nokkurra ára skeið gift sænska barítonsöngvaranum Håkan Hagegård. Það ríkir mikil eftirvænting eftir tónleikunum og margir bíða spenntir eftir að heyra flutning hennar á Söngi Sólveigar og Vorinu eftir norska tónskáldið Edvard Grieg. Hljómsveitarstóri verður Rumon Gamba sem þarf ekki frekari kynningar við, enda orðinn velunnurum Sinfóníuhljómsveitar Íslands kær. Miðaverð á tónleikana er 3600 og 3300 krónur.