EN

25. október 2005

Barbara Bonney forfallast - fiðluleikarinn Tasmin Little væntanleg

Vegna veikinda söngkonunnar Barböru Bonney, sem eru þó sem betur fer ekki alvarleg, verður því miður ekkert af flutningi hennar á ljóðasöngvum Griegs á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar íslands á fimmtudag. Í stað einsöngs Barböru mun fiðluleikarinn Tasmin Little flytja fiðlukonsert í e-moll eftir Mendelssohn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þótt margir hafi eflaust hlakkað til að heyra Bonney syngja er rétt að benda á að Tasmin Little er alls enginn aukvisi. Hún er einn af fremstu fiðluleikurum heimsins um þessar mundir og lán í óláni að jafn mikils metinn tónlistarmaður skyldi fást með svo skömmum fyrirvara til þess að koma fram á tónleikunum. Fiðlukonsertinn var áður á dagskrá árið 2002 og þá var Sif Tulinius í hlutverki einleikarans.