EN

7. nóvember 2005

Tvennir tónleikar franmundan í vikunni

Sinfóníuhljómsveitin verður iðin við kolann í þessari viku, tvennir tónleikar eru framundan, aðrir í Háskólabíói, hinir í Reykjanesbæ. Á fimmtudaginn mun David Geringas stjórna og leika einleik á selló í Háskólabíói, daginn eftir verður Diddú á ferð með Sinfóníuhljómsveitinn í Reykjanesbæ og flytur allar sínar uppáhaldsaríur í Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju. David Geringas er einn af frægustu sellistum heimsins. +++ Hann fæddist inn í litháíska tónlistarfjölskyldu, gerðist ungur nemandi Rostropovítsj við Tónlistarháskólann í Moskvu og vann til gullverðlauna í Tsjajkovskíj-keppninni árið 1970. Hann flýði til Vesturlanda fimm árum síðar, og þá fyrst tók ferillinn stökk uppávið. Hann hefur frumflutt sellókonserta eftir heimsþekkt tónskáld eins og Sofiu Gubaidulinu og Peteris Vasks, og komið fram með flestum þekktustu hljómsveitum heims, undir stjórn manna á borð við Ashkenazy, Rattle, Rostropovítsj og Tilson Thomas. Það var fyrir tíu árum að Geringas hóf nýjan feril sem hljómsveitarstjóri, og nú ferðast hann um heiminn og spilar og stjórnar á víxl.