EN

14. nóvember 2005

Britten og Sjostakovitsj, magnaðir tónleikar framundan fimmtudaginn 17. nóvember

Benjamin Britten og Dímítríj Sjostakovitsj áttu margt sameiginlegt. Hvorugur þeirra eltist mikið við tískustrauma 20. aldarinnar í tónlist, báðir voru þeir miklir friðarsinnar og hugsjónamenn sem höfðu mikla andúð á öllu stríðsbrölti og hvers kyns spillingu. Með þeim tókst vinskapur sem byggði umfram allt á gagnkvæmri virðingu þeirra á list hvors annars. Nú á fimmtudaginn verða verk þeirra félaga á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands: Sinfonia de Requiem eftir Britten og 8. sinfónían eftir Sjostakovítsj undir stjórn Rumons Gamba. Athygli skal vakin á því að verk Brittens hljómar nú í fyrsta sinn í lifandi flutningi hér á landi. +++ Sjostakovítsj var um tíma úthrópaður af flokkshollum kollegum sínum í Rússlandi sem vændu hann um úrkynjun í tónlistarsköpun sinni. Ritari Tónskáldafélagsins Vladimir Zakharov gekk einna vaskast fram þegar hann fullyrti eftirfarandi í ræðu: "Frá sjónarhóli alþýðunnar er 8. sinfónían alls engin tónlist." Líkast til eru fáir sem treysta sér til þess að taka undir þessa fullyrðingu í dag og ljóst að áhuginn á tónlist Dímítríj Sjostakovitsj er gríðarlegur miðað við aðsókn á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar sinfóníur hans eru á efnisskránni. Rumon Gamba hefur hlotið mikið lof fyrir flutning hljómsveitarinnar undir hans stjórn á sinfóníum Sjostakovitsj. Enginn unnandi góðrar tónlistar ætti að láta þessa tónleika framhjá sér fara. Það að komast í návígi við orkuna og kraftinn sem felst í lifandi flutningi slíkra verka verður aldrei jafnað með hlustun á upptökur af plötum eða geisladiskum! "Ég get dregið heimspekilegt innihald nýja verksins saman í þrjú orð: lífið er fallegt. Allt sem er dökkt og drungalegt mun hverfa; hið fagra mun sigra að lokum." Dímítríj Sjostakovitsj um áttundu sinfóníuna Hægt er að kaupa miða á netinu: