EN

20. desember 2005

Vínartónleikarnir 2006 - Peter Guth og Anton Scharinger

Fullyrða má að Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi skipað sér sess sem einir vinsælustu tónleikar Íslandssögunnar og í ár virðist engin breyting ætla að verða þar á, miðarnir rjúka út og eins gott fyrir áhugasama að hafa hraðar hendur. Fyrstu Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir árið 1971 og fram til ársins 1982 voru slíkir tónleikar af og til á dagskráa. Þeir hafa nú verið óslitið á dagskrá hljómsveitarinnar frá árinu 1982. Tónleikarnir verða alls fjórir á ár, (meira um tónleikana) þeir fyrstu miðvikudaginn 4. janúar klukkan 19.30, fimmtudag og föstudag á sama tíma en klukkan 17.00 laugardaginn 7. janúar. +++ Margir líta orðið á Vínartónleikana sem jafn ómissandi hluta þess að fagna nýju ári og að skjóta upp flugeldum, tendra blys. Óhætt er að lofa að enginn verður svikinn af þeirri flugeldasýningu í tónum sem framreidd verður í Háskólabíói dagana 4. til 7. janúar næstkomandi. Það verða tveir reynsluboltar í Vínarhefðinni sem verða í aðalhlutverki í byrjun árs. Hljómsveitarstjórinn Peter Guth er orðinn góðkunningi tónleikagesta en þess má geta að hann kemur nú í tíunda sinn til þess að stjórna vínartónleikunum. Öryggi hans á stjórnendapallinum og ekki síður fínlegur galsaskapurinn hafa aflað honum mikilla vinsælda hérlendis. Söngvarinn Anton Scharinger (sem einnig er Austurríkismaður) hefur skólast vel til í Vínarhefðinni, sungið allar þekktustu óperur Mozarts víða um heim auk þess sem hann hefur tekið þátt fjöldanum öllum af upptökum á verkum tónskáldsins.