EN

4. desember 2006

Ný útgáfuröð Senu og SÍ hefur göngu sína. Elín Ósk syngur með hljómsveitinni

Fyrr á árinu undirrituðu Sena og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir samning um samstarf á nýrri útgáfuröð á sígildri tónlist og nefnist hún SENA KLASSÍK. Stefnt er að útgáfu einnar til tveggja platna á ári hverju en nú er sú fyrsta komin út. Hún inniheldur nýjar upptökur á söng hinnar einstöku Elínar Óskarsdóttur, sópran við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Kurt Kopecky. Á plötunni flytja Elín og Sinfóníuhljómsveitin margar af glæsilegustu aríum óperusögunnar en meðal verka má nefna aríur úr Aidu, Il Trovatore, Macbeth, Cavalleria Rusticana, Tosca, Turandot. Elín fagnar um þessar mundir 20 ára starfsæfmæli sínu sem óperusöngkona en hún steig fyrst á óperusviðið í hlutverki Toscu árið 1986. Nánar um Elínu Ósk og Kurt Kopecky: +++ Óperudívan Elín Ósk er íslendingum að góðu kunn. Hún nam söng við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan einsöngvaraprófi árið 1984. Aðalkennari hennar var frú Þuríður Pálsdóttir óperusöngkona. Elín Ósk stundaði framhaldsnám á Ítalíu og Englandi Eftir tveggja ára nám á Ítalíu var Elín Ósk kölluð heim til Íslands til að syngja titilhlutverkið í óperunni Tosca í uppfærslu Þjóðleikhússins árið 1986 og var það jafnframt hennar fyrsta óperuhlutverk á sviði. Síðan hefur Elín Ósk sungið fjöldamörg óperuhlutverk innanlands sem erlendis Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2003 fyrir hlutverk Lady Macbeth í óperunni Macbeth eftir Verdi í flutningi Íslensku Óperunnar, sem besti flytjandi ársins í flokki sígildrar tónlistar. Einnig fékk hún glæsilega gagnrýni hjá virtasta óperublaði í Evrópu fyrir flutning sinn á hlutverki Lady Macbeth og þótti hún gera hlutverkinu eftirminnileg skil. Áður hefur Elín verið tilnefnd til tónlistarverðalauna en það var árið 1995 fyrir hlutverk Leonoru í Á Valdi Örlaganna eftir Verdi í uppfærslu Þjóðleikhúsins. Elín Ósk söng aftur hlutverk Tosku 2005 við Íslensku Óperuna og fékk frábæra gagnrýni dagblaðanna. Árið 2003 hlaut Elín viðurkenningu Sverrisdags í Hafnarborg fyrir framlag sitt til menningar og lista í Hafnarfirði og 2006 var Elín Ósk gerð að Bæjarlistamanni Hafnarfjarðar ásamt því sem hún hefur þegið listamannalaun frá menntamálaráðuneytinu. Elín Ósk hefur tekist á við ýmis önnur verkefni en óperur bæði hér á landi, á Ítalíu í Búlgaríu, Finnlandi, Noregi og í Rússlandi og sungið undir stjórn þekktra hljómsveitastjóra. Fyrir söng sinn í Sofíu í Búlgaríu ásamt Fílharmoníuhljómsveit Sofíu var Elín Ósk nefnd "Best geynda leyndarmál Evrópu" Hún hefur hljóðritað hljómdiska með íslenskum og erlendum ljóðasöng og óperuaríum. Hún hefur sungið óratoriur og messur eftir innlenda sem erlenda höfunda jafnframt sem að hún hefur sungið verk sem hafa verið sérsamin fyrir hana. Einnig hefur Elín Ósk verið tíður sönggestur Tríó Reykjavíkur. Einnig hefur Elín Ósk starfað sem kórstjóri í mörg ár en árið 2000 stofnaði hún Óperukór Hafnarfjarðar og hefur verið aðalstjórnandi hans síðan. Elín Ósk fagnar 20 ára söngafmæli sínu árið 2006 með fjölda tónleika og hljóðritun á þessum hljómdiski ásamt Sinfóníhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopezky. Hljómdiskurinn inniheldur margar af eftirlætis óperuaríum Elínar Óskar. Kurt Kopecky Kurt Kopecky var ráðinn tónlistarstjóri Íslensku óperunnar árið 2003. Hann hefur nú þegar skipað sér fastan sess í íslensku tónlistarlífi auk þess að vera eftirsóttur undirleikari og söngkennari. Undir stjórn Kurt Kopecky hlaut óperan „Turn of the Screw" eftir Benjamin Britten íslensku tónlistarverðlaunin 2005. Kurt Kopecky er fæddur í Austurríki og stundaði nám í píanóleik frá unga aldri. Hann lauk prófi frá Tónlistarháskóla Vínarborgar árið 2000 í kórstjórn og hljómsveitarstjórn með áherslu á óperur. Árið 2000 var Kurt Kopecky ráðinn hljómsveitarstjóri og píanisti við óperuhúsið í Biel/Solothurn í Sviss. Þar stjórnaði hann helstu verkum óperubókmentanna. Á Íslandi hefur hann verið mjög virkur í hverskonar tónleikahaldi, auk þess að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árið 2006 hlaut hann einróma lof fyrir frumraun sína á Listahátíð Reykjavíkur. Samhliða starfi sínu á Íslandi hefur hann m.a. stjórnað sinfóníuhljómsveitinni í Porto, Tonkuenstler hljómsveitinni í Austurríki, sinfóníuhljómsveitinni í Oulu og Kuopio í Finnlandi, San Jose Chamber Orchestra og Ensemble Phoenix í Basel. Kurt Kopecky stjórnaði Finnsku Kammeróperunni við Helsinki Festival árið 2005. Í kjölfarið var honum boðið að stjórna við Finnsku þjóðaróperuna haustið 2006. Framundan eru tónleikar með nokkrum hljómsveitum í Finnlandi, Austurríki, Portúgal og með Sinfóníuhljómsveit Íslands.