EN

4. janúar 2007

Þrír nemendur stíga á stokk með hljómsveitinni

Á hverju ári hafa Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listaháskólinn samstarf um tónleika þar sem framúrskarandi tónlistarnemar fá tækifæri til þess að spreyta sig með hljómsveitinni. Fimmtudaginn 11. janúar munu þrír nemendur stíga á stokk með hljómsveitinni en tveir þeirra koma úr Listaháskóla Íslands og einn úr Söngskólanum í Reykjavík. Þetta eru þau Eygló Dóra Davíðsdóttr, fiðluleikari og Grímur Helgason, klarinettuleikari úr Listaháskólanum og Egill Árni Pálsson, tenór, úr Söngskólanum í Reykjavík. Á tónleikunum mun Egill syngja aríur úr I Lombardi, Rigoletto og La Traviata eftir Verdi, Grímur mun leika klarinettukonsert eftir Gerald Finzi og Eygló Dóra leikur fiðlukonsert eftir Max Bruch. Auk þess mun Sinfóníuhljómsveitin leika forleikinn vinsæla úr Vilhjálmi Tell. Hljómsveitarstjóri er Esa Heikkilä. Allir sem framvísa námsmannaskíretinum fá miða á hálfvirði!! +++ Margir af núverandi hljóðfæraleikurum SÍ kannast við þá eftirvæntingu og spennu sem fylgir því að leika í fyrsta sinn með Sinfóníuhljómsveitinni. Andrúmsloftið er einatt blandið eftirvæntingu og jákvæðri spennu þegar kemur að þessum viðburði og óhætt er að segja að undanfarin ár hafa gestir farið ánægðir heim að loknum vel heppnuðum tónleikum þar sem eldmóður og spilagleði æskunnar hefur hrifið þá í hæstu hæðir. Líkt og áður sagði hefjast tónleikarnir kl. 19.30 og öllum er framvísa nemendaskírteini stendur til boða að kaupa miða á aðeins 1500 krónur.