EN

23. janúar 2007

Hjónin Martial Nardeau og Guðrún Birgisdóttir leika saman einleik á tónleikum 25. janúar

Það er ekki á hverjum degi sem hjón koma fram saman sem einleikarar á tónleikum SÍ en það er einmitt raunin nú á fimmtudag, þegar þau Guðrún Birgisdóttir og Martial Nardeau leika flautukonsert eftir Karólínu Eiríksdóttur. Martial og Guðrún hófu að leika saman árið 1979, en þau kynntust í Frakklandi þar sem bæði voru við nám. Martial er fæddur þar og hlaut þar sína tónlistarmenntun og Guðrún hafði áður numið við Tónlistarskólann í Reykjavík, hjá Jóni Sigurbjörnssyni og Manuelu Wiesler og við Tónlistarháskólann í Osló. Martial hóf flautunám níu ára gamall við Conservatory of Boulogne S/Mer. Fimm árum síðar útskrifaðist hann með hæstu einkunn og hélt eftir það áfram námi hjá Fernand Caratgé og Roger Bourdin og vann til margra verðlauna, auk þess sem hann stundaði sumarnámskeiðin af mikilli elju. Á árunum 1979 til 1982 var hann fastráðinn við Lamoureux-Sinfóníuhljómsveitina í París auk þess sem hann kenndi og kom víða fram sem einleikari. +++ Eftir að Guðrún lauk námi í Osló ákvað hún að halda til Mekka flautuleikaranna, Frakklands til frekari menntunar við École Normale de Musique í París og lauk Guðrún þaðan einleikaraprófi árið 1979. Þá tók við frekara nám í einkatímum hjá Raymond Guiot og Pierre-Yves Artaud til ársins 1982, en þá fluttu þau Martial til Íslands. Þau eiga að baki glæstan feril sem dúó. Árið 1992 unnu þau til verðlauna í París og þau hafa leikið marga tvíleikskonserta, m.a. með Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Orquestsra del Estado de Mexico. Þau hafa haldið fjölda tónleika í tíu löndum og mörg íslensk tónskáld hafa samið fyrir þau verk, bæði sem sólista og dúó og mörg þeirra hafa verið hljóðrituð. Guðrún og Martial hafa einnig spreitt sig á barokkflautuleik og sótt námskeið hjá Pierre Séchet sem er einn helsti sérfræðingur Frakka á sviði barokktónlistar. Þau hafa frumflutt margar af perlum barokksins á Íslandi. Þau gefið út nokkra hljómdiska, bæði saman og sitt í hvoru lagi og verið virkir tónlistarmenn á mörgum sviðum. Þau hafa ferðast um landið og víða leikið í skólum og þannig kynnt hljóðfærið og tónlistina fyrir æsku landsins. Þau hafa einnig leikið í Hljómsveit íslensku óperunnar og Kammerskveit Hallgrímskirkju í fjölda ára. Martial hefur auk þess lengi verið flautuleikari í Sinfóníuhljómsveitinni. Þau hafa átt frjótt samstarf með Karólínu Eiríksdóttur, hún hefur áður samið fyrir þau verk, bæði sem dúó og sitt í hvoru lagi. Dúóið Spil var samið árið 1993, einleiksverkið Flautuspil samdi hún fyrir Martial árið 1998 og Spor (fyrir altflautu) fyrir Guðrúnu árið 2000.