EN

6. mars 2007

Ævintýralegir fjölskyldutónleikar laugardaginn 10. mars

Á laugardaginn klukkan 15.00 munu hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Bernharðar Wilkinsonar ljúka upp dyrum inn í ævintýraheima þar sem kóngar, drottningar, álfar, tröll, galdramenn og furðulegustu kynjaverur halda til. Strákústar taka upp á því að dansa eftir misheppnaða galdratilraun lærisveins, Dimmalimm leikur á flautu, uglan hans Harry Potter tekur flugið, næturdrottningin syngur aríu og galdramaður af Ströndum mun kveða niður draug. Hver veit nema að hann þurfi á hjálp vaskra krakka að halda til þess að klára verkið. Fjöldi góðra gesta kemur fram á tónleikunum, Björg Brjánsdóttir er ungur og stórefnilegur flautuleikari sem, þrátt fyrir ungan aldur, kemur hún nú fram í annað sinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands en hún er einungis tæplega 14 ára. Viera Manasek, sópran, syngur aríu Næturdrottningarinnar eftir Mozart +++en þetta er í fyrsta sinn sem hún kemur fram með hljómsveitinni. Kynnir á tónleikunum er Skúli Gautason en margir þekkja hann af afrekum hans með Sniglabandinu, auk þess sem hann hefur leikið, leikstýrt og samið tónlist fyrir leksýningar svo eitthvað sé nefnt. Bernharður Wilkinson er tónleikagestum hljómsveitarinnar að góðu kunnur. Hann á að baki fjölda verkefna með hljómsveitinni og hefur verið ábyrgur fyrir jólaskapi fjölda fólks í mörg ár á jólatónleikum SÍ. Það verkefni hefur hann leyst með glæsibrag, Tónleikarnir hefjast klukkan 15.00, laugardaginn 10. mars. Miðaverð fyrir fullorðna er 1600 krónur en 1200 krónur fyrir börn 16 ára og yngri. Athugið að ekki er hægt að kaupa miða á barnaverði í netsölu. Vinsamlegast hringið í síma 545 2500 eða komið í heimsókn í miðasölu hljómsvetiarinnar í Háskólabíói. Góða skemmtun.