EN

14. mars 2007

Sir John Tomlinson og Tatiana Monogarova syngja með SÍ

Gestir Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudaginn 15. mars eru tveir stórkostlegir söngvarar, þau Tatiana Monogarova frá Rússlandi og Sir John Tomlinson frá Englandi. Þau munu taka þátt í flutningi á 14. sinfóníu Sjostakovitsj undir stjórn aðalhljómsveitarstjórans Rumon Gamba. Þess má geta að senn lýkur skipulagðri yfirreið hljómsveitarinnar um allar sinfóníur Dímítrí Sjostakovitsj, sem hófst fyrir ríflega 4 árum fyrir atbeina Rumon Gamba. „Dásamleg rjómarödd,“ sagði gagnrýnandi andante.com um frumraun Monogarovu í Don Giovanni í Glyndebourne 2002, þar sem hún söng á móti Finni Bjarnasyni. Aðrir hafa tekið undir þetta og líkja henni við eina fremstu söngdívu heims um þessar mundir, Renée Fleming. Sir John Tomlinson er einn dáðasti söngvari Breta og einhver mesti Wagner-söngvari okkar tíma. Hann lærði við Tónlistarháskólann í Manchester og gekk til liðs við English National Opera 1975. Hann debúteraði í Covent Garden 1979 og hefur sungið á Bayreuth-hátíðinni árlega frá 1988. +++ Á efnisskrá tónleikanna eru verk þriggja rússneskra tónskálda. Athygli tónleikagesta er vakin á sýningu í anddyri Háskólabíós sem standa mun uppi fyrir tónleikana og í hléi. Þar má sjá ýmsar myndir og lesa fróðleik er tengist Dr. Georg Berna, náttúrufræðingi sem leiddi hóp vísindamanna er heimsótti Ísland árið 1862. Berna þessi lést úr barnaveiki skömmu eftir Íslandsförina. Til minningar um eiginmann sinn fékk ekkja Dr, Berna ungan málara til þess að mála mynd af einmanalegri eyju. Málarinn var Arnold Brocklin og myndin hlaut nafnið "Die Toteninsel" en þetta er einmitt myndin sem veitti Rakmaninoff innblástur til þess að semja verk sitt sem hann nefndi einfaldlega "Eyja hinna dauðu". Frank Ponzi listfræðingur komst á snoðir um þessa sögu fyrir nokkrum áratugum og hefur tekið saman greinar, úrklippur og myndir sem tónleikagestir geta skoðað sér til fróðleiks. Hægt er að lesa nánar um þessa sögu í kaflanum um Rakmaninoff í efnisskrá. Ígor Stravinskíj hefur varla grunað að litla hljómsveitarstykkið sem hann samdi sem brúðkaupsgjöf til dóttur kennara síns, Rimskíj- Korsakovs, vorið 1908 myndi breyta lífi hans. Sú varð nú samt raunin. Þegar verkið var frumflutt í St. Pétursborg var ballettstjórinn Sergei Diaghilev meðal áheyrenda, og verkið hreif hann svo að hann pantaði heilan ballett, Eldfuglinn, frá hinu hálfþrítuga tónskáldi. Hvenær hættir sinfónía að vera sinfónía? Líklega ætti sú fjórtánda eftir Dímítríj Sjostakovítsj frekar að kallast lagaflokkur eða söngvasveigur, því tveir einsöngvarar eru í forgrunni allt frá upphafi til enda. Í þessu verki, sem Sjostakovítsj samdi á sjúkrahúsi alvarlega veikur, notar hann 11 ljóð eftir meistara á borð við García Lorca, Apollinaire og Rilke, sem öll eiga það sameiginlegt að fjalla um dauðann. Þetta er einhver harmþrungnasta tónlist sem Sjostakovítsj samdi um ævina, áhrifamikil hugleiðing tónskálds sem gerir upp lífshlaup sitt frammi fyrir dauðanum. Tónleikarnir hefjast klukkan 19.30 en þeir eru liður í rauðri áskriftarröð. Örfá sæti eru laus á tónleikana. Hljómsveitarstjóri: Rumon Gamba Einsöngur: Tatiana Monogarova Einsöngur: John Tomlinson Ígor Stravinskíj: Fireworks Sergej Rakhmanínov: Isle of Death Dímítrí Sjovstakovtsj: Sinfónía nr. 14