EN

15. mars 2007

Sif Tulinius leikur fiðlukonsert Gubaidulinu fimmtudaginn 22. mars

Sif Tulinius leikur fiðlukonsert eftir Sofiu Gubaidulinu, Offertorium, fimmtudaginn 22. mars næstkomandi. Gubaidulina hefur um áratugaskeið verið í fremstu röð kventónskálda í heiminum. Hún hlaut skammir á lokaprófi sínu við Tónlistarháskólann í Moskvu, þar sem prófdómurum þótti hún hafa snúið af hinni „réttu braut“ í tónlistinni. Hún var varla komin út úr kennslustofunni þegar Sjostakovítsj vatt sér að henni á ganginum og og hvíslaði: „Haltu áfram á vitlausu brautinni!“ Sif Tulinius hefur verið 2. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands í 7 ár. +++Hún hóf nám í fiðluleik sjö ára gömul hjá Gígju Jóhannsdóttur og lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1991 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hún stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum og lauk B.A. prófi frá Oberlin College sem nemandi Almitu og Rolands Vamos og meistaragráðu frá New York þar sem kennarar hennar voru Joyce Robbins og Joel Smirnoff. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Finninn Pietari Inkinen, en honum hefur verið tekið með kostum og kynjum um allan heim. Hann þreytti frumraun sína með Fílharmóníusveitinni í Helsinki þegar hann hljóp í skarðið og stjórnaði 1. sinfóníu Waltons með skömmum fyrirvara. Inkinen er einnig eftirsóttur fiðluleikari og hefur því alla burði til þess að stjórna fiðlukonsert Gubaidulinu á eftirminnilega hátt. Hann var m.a. valinn á sínum tíma til þess að leika einleik með Helsinki-fílharmóníunni á fiðlukonsert Sibeliusar í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá því verkið var samið. Á efnisskrá tónleikanna eru einnig verk sem samin hafa verið við frægustu ástarsögu allra tíma, Rómeó og Júlíu eftir Shakespeare. Annars vegar er hér um að ræða forleikinn eftir Tsjajkovskíj og hins vegar þætti úr 1. og 2. ballettsvítu Prókofíevs. Miða er hægt að kaupa hér á heimasíðu Sinfóníuhljómsveitarinnar.