26. mars 2007
Páll postuli eftir Mendelssohn á páskatónleikum hljómsveitarinnar
Fimmtudaginn 29. mars stjórnar Hörður Áskelsson flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verkinu Paulus eftir Felix Mendelssohn. Söngvarar verksins eru fjórir, þau Jutta Böhnert frá Þýskalandi, Sigríður Aðalsteinsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Magnús Baldvinsson en auk þess mun Mótettukórinn taka þátt í flutningi verksins. Óratórían Paulus eftir Felix Mendelssohn var mikið „kassastykki“ á nítjándu öld. Frumflutningurinn í Düsseldorf í maí 1836 tókst afar vel (þrátt fyrir að Fanny, systir tónskáldsins, sem söng í kórnum, hafi þurft að koma einum af einsöngvurunum til bjargar í viðkvæmri strófu) og í október sama ár var ensk útgáfa óratóríunnar frumflutt í Liverpool. Hálfu öðru ári síðar hafði verkið hljómað meira en fimmtíu sinnum víðsvegar um Evrópu og Bandaríkin við frábærar undirtektir. +++ Þegar fram liðu stundir féll Paulus nokkuð í skugga Elía, seinni óratóríu Mendelssohns, en þó er engum blöðum um það að fletta að þetta tímamótaverk í sögu trúarlegrar tónlistar stendur enn fyrir sínu. Í Paulus sótti Mendelssohn innblástur í óratóríur Händels og passíur Bachs (hann hafði sjálfur vakið Matteusarpassíuna af Þyrnirósarblundi með sögufrægri uppfærslu í Berlín aðeins 19 ára gamall). Hér gefst tónlistarunnendum því fágætt tækifæri til að heyra meginverk eftir einn af fjölgáfuðustu tónsmiðum allra tíma þar sem pólýfónía barokksins, tærleiki snemmrómantíkurinnar og tímalaus sálmalög renna saman í hrífandi og dramatískri frásögn um stórvirkasta trúboða kristninnar. Hörður Áskelsson Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík allt frá því hann sneri aftur til Íslands að loknu framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar, stofnaði Listvinafélag Hallgrímskirkju og Mótettukór Hallgrímskirkju árið sem hann kom til starfa og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996 Sigríður Aðalsteinsdóttir hóf söngferil sinn í Þjóðaróperunni í Vínarborg árið 1997 en er nú starfandi í Þýskalandi. Hún hlaut lofsamlega dóma fyrir túlkun sína á Mother Goose í Flagara í framsókn hjá Íslensku óperunni sem var á fjölum óperunnar í vetur. Gunnar Guðbjörnsson hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og skemmst er að minnast stórbrotinnar frammistöðu hans við frumflutning EDDU I eftir Jón Leifs í Háskólabíói fyrr í vetur. Magnús Baldvinsson syngur nú í fyrsta sinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands en svo skemmtilega vill til að hann er einn af stofnendum Mótettukórsins og hefur margoft komið fram sem einsöngvari með kórnum, m.a. í flutningi á Jósúa og Sálumessum Fauré og Duruflé. Hér þreytir hann frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Jutta Böhnert, frá Þýskalandi, hefur vakið athygli fyrir ágæta frammistöðu sína í fjölmörgum hlutverkum ýmissa persóna tónbókmenntanna. Hún hóf feril sinn með því að syngja við ungliðadeild Ríkisóperunnar í Stuttgart, en í kjölfar þess fylgdi samningur við Óperuna í Nürnberg. Mótettukór Hallgrímskirkju hefur lengi verið meðal fremstu kóra Íslands. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur. Þar má finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Það er því sannkallað einvalalið sem skemmta mun áheyrendum á þessum páskatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.