25. apríl 2007
Tveggja meistara veisla dagana 2. og 4. maí
Þá er komið að seinni Beethoven/Brahms vikunni hjá hljómsveitinni. Dagana 2. og 4. maí verða einungis píanókonsertar Beethovens og sinfóníur Brahms á efnisskrá þeirra tveggja tónleika sem fyrirhugaðir eru. Samskonar vika á haustmisseri heppnaðist vel og gerðu áheyrendur góðan róm að fyrirkomulaginu. Áskrifendur geta fengið miða með 15% afslætti á fyrri tónleikana, miðvikudaginn 2. maí en þá mun brasilíski píanistinn Cristina Ortiz leika 4. píanóknsert Beethovens auk þess mun 2. sinfónía Brahms hljóma það kvöld. Föstudaginn fjórða maí sest breski einleikarinn John Lill við slaghörpuna og flytur 5. píanókonsert Beethovens en eftir hlé er röðin komin að 1. sinfóníu Brahms. Það er Rumon Gamba sem stjórnar bæði kvöldin enda tónleikaröðin hugarfóstur hans. Einungis örfá sæti eru laus á seinni tónleikana en ennþá er hægt að fá miða á þá fyrri.