EN

8. maí 2007

Olivier Charlier kemur í stað Helene Grimaud. Efnisskrá breytist lítillega

Af óviðráðanlegum ástæðum getur franski píanóleikarinn Hélène Grimaud, sem leika átti með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum á Listahátíð í Reykjavík föstudaginn 11. maí næstkomandi ekki komið hingað til lands til tónleikahalds. Talsverð eftirsjá er af Heléne Grimaud en það verður að teljast ótrúlegt að á ekki skemmri tíma hafi tekist að ná samkomulagi við einn af eftirsóttari tónlistarmönnum Frakklands um þessar mundir til þess að leysa hana af hólmi, fiðluleikarann Olivier Charlier. Olivier Charlier var ekki hár í loftinu þegar hann náði athygli Nadia Boulanger, Yehudi Menuhin og Henryk Szeryng. Hæfileikar hans komu snemma í ljós og á ferli sínum hefur hann sópað til sín sín verðlaunum úr alþjóðlegum tónlistarkeppnum og verið eftirsóttur einleikari hjá mörgum af bestu hljómsveitum veraldar og unnið með mörgum af þekktustu hljómsveitarstjórum samtímans. Koma Olivier Charlier til landsins eru því stórtíðindi. Efnisskrá tónleikanna breytist lítillega að þessum sökum. +++Í stað píanókonserts Johannesar Brahms nr. 2 hljómar fiðlukonsert nr. 3 eftir Saint Saëns. Efnisskráin er því orðin alfrönsk sem er vel við hæfi á lokaviðburði frönsku menningardaganna Pourquoi-Pas. Hector Berlioz: Roman Carnival, forleikur Camille Saint-Saëns: Fiðlukonsert nr. 3 Claude Debussy: Síðdegi skógarpúkans Maurice Ravel: La Valse Hljómsveitarstjóri er sem fyrr David Björkman en hann fékk gríðarlegt lof áheyrenda og hljómsveitar þegar hann nú fyrir skemmstu, hljóp í skarðið á elleftu stundu fyrir Mikko Frank og stýrði tveimur eftirminnilegum konsertum með Sænsku útvarpshljómsveitinni og Héléne Grimaud. Segja má með sanni að gestir Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þessum tónleikum séu sannkallaðir bjargvættir. Tónleikarnir eru framlag Pourquoi-Pas til Listahátíðar og eru styrktir af Kaupþingi og hefjast þeir kl. 19.30 föstudaginn 11. maí í Háskólabíói. Miðasala er á vefsíðum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sinfonia.is, Listahátíðar í Reykjavík, artfest.is og á midi.is.