EN

16. maí 2007

Glæsilegur lúðraþytur í Listasafni Íslands á laugardaginn

Laugardaginn 19. maí verða síðustu tónleikar starfsársins í kammertónleikaröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Kristalnum svokallaða, en þá munu allir málmblásarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands leika saman ásamt tveimur slagverksmönnum. Á efnisskránni eru meðal annars verk Modest Mússorskíjs; Myndir á sýningu; í útsetningu fyrir málmblásarasveit eftir Elgar Howarth. Hljómsveitarstjóri í tónleikunum er Anthony Plog en hann hefur starfað jöfnum höndum við tónsmíðar og hljómsveitarstjórn og er mjög virtur á sínu sviði. Lengi vel sérhæfði hann sig í tónsmíðum fyrir blásturshljóðfæri og hefur hlotið fjöldan allan af viðurkenningum fyrir framlag sitt. +++ Verk Mússorskíjs, Myndir á sýningu, hefur lengi vel verið eitt hans vinsælasta. Verkið er upphaflega samið fyrir píanó en Maurice Ravel útsetti það fyrir hljómsveit og reyndar hefur Vladimir Ashkenazy einnig spreytt sig á verkefninu. Það verður fróðlegt og frískandi að heyra hvernig Elgar Howarth hefur búið um hnútana á málverkasýningunni. Einnig eru á dagskrá tónleikanna verk eftir Pablo og Henri Tomasi. Það er ekki á hverju degi sem svo glæst blásarasveit stígur saman á stokk og áheyrendur geta stólað á frábæra skemmtun. Miðasala er við innganginn, en tónleikarnir sem fara fram í Listasafi Íslands, laugardaginn 19. maí eins og áður sagði hefjast klukkan 17.00. Miðaverð er einungis 1500 krónur. Listasafn Íslands, laugardaginn 19. maí 2007 kl. 17.00 Málmblásarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands Hljómsveitarstjóri. Anthony Plog Efnisskrá: Pablo Casals ::: O Vos Omnes Henri Tomasi ::: Fanfares liturgiques (extrait de Miguel Manara) Modest Mussorgsky ::: Myndir á sýningu (útsetning fyrir málmblásarasveit: Elgar Howarth)