25. maí 2007
Ávaxtakarfan í sinfónískan búning 2. júní
Sinfóníuhljómsveit Íslands mun flytja tónlistina ú söngleiknum vinsæla Ávaxtakörfunni á tónleikum sínum þann 2. júní næstkomandi. Á tónleikunum verða fluttar nýjar útsetningar á lögum Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar í flutningi úrvalssöngvaranna Jóns Jóseps, eða Jónsa eins og hann er kallaður, Selmu Björnsdóttur, Andreu Gylfadóttur og Valgerðar Guðnadóttur. Kynnir á tónleikunum er enginn annar en Örn Árnason og hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson. Söngleikurinn um Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og Þorvald Bjarna Þorvaldsson hefur notið gríðarlegra vinsælda frá því verkið var fyrst sýnt árið 1998 í Íslensku óperunni. Verkið var aftur sett á svið árið 2005 í Austurbæ og alls sáu um 16 þúsund manns sýninguna þá. Nú geta börn á öllum aldri endurnýjað kynnin við Ávaxtakörfuna og heyrt nokkur af lögunum úr leikritinu í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gesta.