EN

30. maí 2007

Sjostakovitsj hringnum lokað á tónleikum 31. maí

Á morgun fimmtudaginn 31. maí verður merkum áfanga náð á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands en þá lýkur hljómsveitin því metnaðarfulla verkefni sem aðalhljómsveitarstjórinn Rumon Gamba ýtti úr vör fyrir fimm árum að leika allar sinfóníur rússneska tónskáldsins Dímítríj Sjostakovitsj. Dmitríj Dmitríevitsj Sjostakovitsj var einn mesti meistari sinfóníska formsins á 20. öld og fimmtán sinfóníur hans eru magnaður vitnisburður um hina víðsjárverðu tíma sem hann lifði. Þær eru verk mikilla öfga og innihalda ólgandi ástríður, hugrekki, trega og sorg. Með tónleikum kvöldsins lýkur Sjostakovitsj-röð Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem hófst í október 2003. Síðan þá hefur hljómsveitin leikið allar sinfóníur Sjostakovitsj á tólf tónleikum og voru sjö þeirra (nr. 2, 3, 4, 6, 11, 12 og 14) frumfluttar á Íslandi við þetta tilefni. Vert er að benda á fyrir þá sem vilja endurnýja kynnin að Sjostakovitsj-röðin verður á dagskrá Rásar 1 á þriðjudagskvöldum í sumar og mun Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur kynna sinfóníurnar í tali og tónum. Á tónleikunum verður einnig flutt nýtt verk eftir Þórð Magnússon sem ber heitið “Það mótlæti þankinn ber” +++og er þriðja verk Þórðar sem flutt er af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sinfónía var fyrsta verkið sem Þórður samdi fyrir stóra hljómsveit og var hún frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands á Myrkum músíkdögum í febrúar árið 2004. Ári síðar, eða 2005 samdi hann annað sinfónískt verk, Sinfóníettu. Einnig mun breski bass-barítón söngvarinn Sir Donald McIntyre syngja Kveðju Óðins, aríu úr Valkyrjunum eftir Richard Wagner. Sir Donald McIntyre verður að teljast einn helsti bass-barítón söngvari sinnar kynslóðar. Þrátt fyrir það var hann kominn vel yfir tvítugt þegar hann ákvað að leggja söngferilinn fyrir sig, en upphaflega menntaði hann sig til að verða kennari. Tónleikarnir eru liður í rauðri áskriftarröð og verða líkt og áður sagði fimmtudaginn 31. maí í Háskólabíói og hefjast klukkan 19.30 og að sjálfsögðu er það Rumon Gamba sem stjórnar. Fyrir tónleikana verður aðalfundur Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands haldinn á Hótel Sögu. Strax að fundinum loknum mun Karólína Eiríksóttir, tónskáld, kynna efnisskrá kvöldsins fyrir gestum. Allir eru velkomnir á fundinn, skráðir sem óskráðir félagar. Boðið verður upp á súpu og kaffi og aðgangseyrir er einungis 1200 krónur. Vert er þó að benda á að ýmis fríðindi fylgja því að vera skráður meðlimur í Vinafélagið og hægt verður að skrá sig á staðnum. Aðalfundurinn hefst kl. 17.30. maí 2007 en tónleikakynningi hefst um 18.30.